Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur (1990-92)

Sauðfé á mjög...1

Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur

Hljómsveitin með langa nafnið, Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur, varð landsþekkt fyrir nafn sitt en sveitin lék eins konar skrýtirokk samkvæmt eigin skilgreiningu, í anda dauðarokksins sem þá var í hávegum haft. Nafn sveitarinnar kemur úr Stuðmannabókinni Draumur okkar beggja e. Illuga Jökulsson en þar kemur þessi setning fyrir í tengslum við hippa áttunda áratugarins, síða hárið og lúsina sem var fylgifiskur þess, að mati margra á þeim tíma.

Sveitin var stofnuð vorið 1990 og keppti stuttu síðar í Músíktilraunum Tónabæjar, þá voru meðlimir sveitarinnar þeir Valur Arnarson söngvari, Jón Örlygsson söngvari, Jón Aðalsteinn Bergsveinsson gítarleikari, Kári Örlygsson bassaleikari og Guðmundur Torfi Heimisson trommuleikari. Sveitin komst í úrslit keppninnar en vann ekki til verðlauna.

Um haustið breyttist liðsskipan örlítið þegar Kristinn Jón Arnarson tók við bassanum af Kára sem færði sig yfir á gítar. Einnig tók Auðunn Örvar Pálsson við trommunum af Guðmundi Torfa.

Sauðfés lék víða um land á starfsárum sínum, m.a. í Húnveri um verslunarmannahelgina 1991 en þó mest á Reykjavíkursvæðinu og á heimaslóðum. Sveitin starfaði til 1992 og komu lög með henni út á tveimur safnspólum, Strump (1990) og Snarl (1991).

Þegar sveitin hætti voru uppi hugmyndir um að stofna nýja sveit á rústum þeirra gömlu undir nafninu Sauðfés, í þeirri útgáfu var Sindri Páll Kjartansson orðinn trymbill sveitinnar en lengra náðu þær hugmyndir ekki.