Bumburnar (1982-88)

Bumburnar

Hljómsveitin Bumburnar var danshljómsveit, starfandi á Norðfirði um árabil á níunda áratug síðustu aldar.

Sveitin var stofnuð 1982 upp úr leifum Amon Ra og lék á dansleikjum víða um Austfirði en mest þó í heimabyggð, Bumburnar voru t.a.m. fastagestir á þorrablótum og árshátíðum eystra.

Í upphafi gekk sveitin undir nafninu Jón og Bumburnar, og voru meðlimir hennar þá Jón Þorleifur Steinþórsson (Jón Skuggi) bassaleikari, Ágúst Ármann Þorláksson orgelleikari, Smári Geirsson söngvari og saxófónleikari, Pjetur S. Hallgrímsson trommuleikari og Guðjón Steinþórsson gítarleikari. Þegar Jón hætti tók Ágúst Ármann við bassanum og um svipað leyti bættist Hlöðver Smári Haraldsson hljómborðsleikari í hópinn. Þannig var sveitin skipuð lengst af.

Um haustið 1986 kom Helga Steinsson söngkona inn í hljómsveitina og söng líklega þar til Bumburnar hættu störfum haustið 1988.