Amon Ra (1971-82)

Amon ra 1976

Amon Ra 1976

Amon Ra (AmonRa) er klárlega ein þekktasta hljómsveit Austfirðinga fyrr og síðar og skipar sér með merkilegri sveitum áttunda áratugarins. Fjölmargir síðar þekktir tónlistarmenn fóru í gegnum þessa sveit og mætti kannski segja hana hafa verið eins konar uppeldisstöð tónlistarmanna á sínum tíma en fjöldi þeirra var líklega um fjörutíu, eftir því sem Dr. Gunni segir í bókinni Eru ekki allir í stuði.

Hljómsveitin sem var frá Norðfirði, var stofnuð snemma árs 1971 (reyndar í Reykjavík) en í upphafi innihélt hún Pjetur Sævar Hallgrímsson trommuleikara (síðar iðulega kallaður Pjetur í Tónspil), Ágúst Ármann Þorláksson bassaleikara, Örn Óskarsson gítarleikara, Hlöðver Smára Haraldsson hljómborðsleikara og Ólaf Baldursson söngvara. Fyrsta gigg sveitarinnar var sjómannadagsball í Neskaupstað, þar lék Amon Ra ekki þá tónlist sem ballgestir áttu von á en frá upphafi fór sveitin eigin leiðir og spilaði m.a. sýrurokk og annað þyngra rokk oft við litlar undirtektir þeirra sem vildu dansvæna tónlist. Þannig var sveitin ætíð á skjön við aðrar landsbyggðarsveitir þess tíma.

Næstu árin spilaði Amon Ra einkum um sumartímann, æfðu gjarnan öflugt prógramm um vorið og keyrðu á því næstu mánuði. Sveitin hélt sig þó iðulega við sitt þunga efni og frumsamið efni fékk einnig að fylgja með, undantekningin var þó sumarið 1973 þegar þeir ákváðu að mæta kröfum fólksins og léttu lagavalið til að þóknast því. Það varð til þess að Pjetur trommuleikari hélt sig utan seilingar það sumarið og Karl Jóhann Birgisson leysti hann af það sumarið. Smári Geirsson (síðar forseti bæjarstjórnar í Neskaupstað) tók við söngnum og blés í lúður og Ólöf Þórarinsdóttir söng einnig það misserið.

Eftir sumarið 1973 fór Amon Ra í langt frí og spilaði nánast ekkert til vorsins 1976, hún kom reyndar einu sinni fram sumarið 1975 og söng þá Ólafur, fyrsti söngvari sveitarinnar, með henni en auk hans voru þá Guðjón Steinþórsson gítarleikari, Ágúst (sem þá var kominn á hljómborð), Pjetur sem aftur var kominn á trommur, Örn núna á hljómborð og lúður, Smári og Hjálmar Bjarnason bassaleikari.

Í millitíðinni (1975-76) léku þeir félagar undir nafninu Ósíris en tóku aftur upp Amon Ra nafnið um vorið 1976. Þá höfðu þeir Guðmundur Eiríksson söngvari og blásari, og Jón Steinþórsson bassaleikari (Jón skuggi) bróðir Guðjóns komið í bandið í stað Hjálmars, ennfremur lék Smári einnig á saxófón þannig að sveitin var vel sett hvað lúðrablástur snerti og var því af gárungunum stundum kölluð Lúðrasveitin.

Enn urðu mannabreytingar næsta sumar (1977) þegar Gunnar Kristinsson orgelleikari kom í stað Ágústs en einnig bættust í hópinn Guðbrandur Einarsson píanóleikari og blásari og Sævar Sverrisson (síðar kenndur við Spilafífl og Galíleó) söngvari, Guðmundur, Smári og Örn voru nú hættir.

amon ra 1981

Amon Ra 1981

Haustið 1977 varð enn ein uppstokkun í Amon Ra þegar þeir Jón skuggi bassaleikari, Guðjón gítarleikari og Pjetur trommuleikari fóru suður á vit Reykjavíkurævintýra og starfræktu sveitina á höfuðborgarsvæðinu, þar bættust í hópinn Ingvi Þór Kormáksson píanóleikari, Guðmundur Hermannsson (Mummi Hermanns) söngvari og Ásgeir Hólm saxófónleikari en þeir höfðu starfað saman í hljómsveitinni Experiment. Sú útgáfa varð ekki langlíf því Austfirðingarnir þrír héldu aftur austur um áramótin 1977-78.

Árið 1978 gengu þeir Eiríkur Hauksson söngvari og Sigurgeir Sigmundsson til liðs við Amon Ra, þá voru fyrir í sveitinni Ágúst, Jón, Guðjón og Pjetur. Þeir Eiríkur og Sigurgeir stöldruðu þó aðeins við þetta eina sumar og áttu eftir poppa upp saman í hljómsveitinni Start (reyndar með viðkomu í sveitum eins og Þey). Um þetta leyti var sveitin farin að spila eitthvað sunnanlands og var reyndar að verða að heilsárssveit, Ólöf Þórarinsdóttir sem hafði sungið með sveitinni nokkrum árum áður hafði viðkomu í henni, Sævar Sverrisson kom aftur en auk þess birtist enn einn Reykvíkingurinn, Hörður Bragason orgelleikari sem hefur síðan komið víða við í tónlistinni eins og kunnugt er. Þeir Jón skuggi bassaleikari hafa t.a.m. starfað oft saman síðan.

1980 kom Guðmundur Hermannsson inn sem söngvari, um það leyti hafði Sigurður Long saxófónleikari einnig viðkomu í Amon Ra en þarna var farið að styttast í endalok hennar.

Sumarið 1980 kom Mummi Hermanns aftur inn sem söngvari, hann hafði verið í Reykjavíkur-útgáfunni haustið 1977 en var nú fluttur austur. Um það leyti hafði Sigurður Long saxófónleikari einnig viðkomu í Amon Ra en þarna var farið að styttast í endalok hennar.

Vorið 1981 hætti Pjetur og á svipuðum tíma hélt sveitin loks í hljóðver í Reykjavík, þar spilaði Sigtryggur Baldursson á trommur og nokkrum mánuðum síðar kom út eina afurð sveitarinnar, tveggja laga plata sem hafði að geyma lög þeirra félaga við texta Einars Más Guðmundssonar. Platan vakti nokkra athygli, einkum lagið Dansaðu fíflið þitt. Ljóðið við það lag átti síðar eftir að birtast sem heiti á plötu og lagi með Samúel Jóni Samúelssyni, Tómasi R. Einarssyni og Jagúar löngu síðar og hlaut útnefninguna Djassplata ársins 2004 á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Þegar platan kom út 1981 hafði Amon Ra breytt nafni sínu í Án orma (með stafarugli) en einnig hafði hún stundum spilað undir nafninu Amma. Umslag plötunnar þótti nokkuð sérstakt en það var heftað saman og nafn sveitarinnar stimplað á það.

Reyndar lék sveitin einnig undir á breiðskífu sem gefin var út af herstöðvarandstæðingum 1982 undir nafni Heimavarnarliðsins en Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) hélt utan um það verkefni og fékk til liðs við sig fjöldann allan af þekktum söngvurum – og Amon Ra sem þá var skipuð þeim Ingva Þór, Mumma Hermanns, Guðjóni, Pjetri og Jóni. Platan hlaut titilinn Hvað tefur þig bróðir? og áttu þeir Ingvi Þór og Mummi Hermanns sitt hvort lagið á henni, Ákall til Dollars almáttugs og Klukkurnar í Nagasaki, síðarnefnda lagið átti eftir að koma aftur út (í annarri útgáfu) á sólóplötu Mumma, Í tilefni dagsins (2005).

Amon Ra hefur oft verið minnst fyrir að þora að vera fylgin sér og fylgja ekki þeim straumum sem flestar sveitir landsbyggðarinnar eltu, hún hefur því fyrir sérstöðuna þótt merkilegri sveit en aðrar slíkar.

Sveitin hefur komið nokkrum sinnum saman, 1991 og 1999 að minnsta kosti og margir sveitarmeðlimir hafa starfað í mörgum sveitum austanlands, til að mynda Bumbunum og Firringu.

Snælda með nokkrum austfirskum flytjendum kom út 1993 og var efni með Amon ra að finna á þeirri útgáfu, allar upplýsingar þar að lútandi eru vel þegnar. Þess má að lokum geta að nafn sveitarinnar kemur fyrir í ljóðinu Hádegi á Þórshöfn eftir Anton Helga Jónsson og birtist í ljóðabókinni Dropi úr síðustu skúr (1979).

Efni á plötum

Sjá einnig Ósíris