Vormenn Íslands [2] (1987)

Vormenn Íslands slógu í gegn vorið 1987 með gamla Lúdó & Stefán slagaranum Átján rauðar rósir, sem kom út á safnplötunni Lífið er lag en sú plata hafði einnig nokkur Eurovision lög úr undankeppninni hér heima.

Vormenn Íslands mun ekki hafa verið starfandi sem hljómsveit heldur var verkefnið einvörðungu unnið með útgáfu lagsins í huga, meðlimir sveitarinnar voru þau Jakob Frímann Magnússon hljómborðsleikari, Friðrik Karlsson gítarleikari, Ragnhildur Gísladóttir söngkona og Stefán Hilmarsson, þá söngvari Sniglabandsins en hann var þá að stíga sín fyrstu skref í poppbransanum.

Lagið varð feikivinsælt og fór fremur hátt á vinsældalistum Rásar 2 og Bylgjunnar en ekki varð framhald á þessu samstarfi, síðar kom reyndar í ljós að lagið var tengt kosningabaráttu alþýðuflokksins og var Jakob Frímann á bak við það, Stefáni söngvara var ekki kunnugt um það þegar hann var „vélaður“ í verkefnið og varð hann fyrir vikið ósáttur enda hafði það ekki verið í hans plönum að starfa fyrir alþýðuflokkinn eða aðra stjórnmálaflokka.

Átján rauðar rósir kom út á tveggja laga smáskífu sem hafði að geyma tvær útgáfur af laginu, og lagið kom síðar út á fleiri safnplötum s.s. Í sumarsveiflu (1992), Í sól og sumaryl (2000) og Óskalögin 7 (2003).

Efni á plötum