
Sindri Már Sigfússon
Hvorki fleiri né færri en sjö tónlistartengd afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:
Sigurður Karlsson trommuleikari er sextíu og níu ára gamall. Hann þótti einn albesti trommuleikari poppgeirans á áttunda áratugnum og spilaði með hljómsveitum eins og Change, Blúskompaníinu, Kinks, Póker, Sjálfsmorðssveitinni, Svanfríði, Brunaliðinu, Eik og Friðryk svo fáeinar séu nefndar.
Jón Ómar Erlingsson bassaleikari Sóldaggar er fjörutíu og átta ára gamall. Þótt Sóldögg sé þekktust þeirra sveita sem hann hefur leikið með hefur hann leikið með böndum eins og Af lífi og sál, Dykk, Smáaurarnir, Nykur, Sælgætisgerðin og Hollívúdd. Jón Ómar er framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar Odda og hefur því sinnt bassamennsku minna síðustu árin.
Birgir Örn Steinarsson (Biggi í Maus) er fjörutíu og þriggja ára gamall í dag, honum skaut á stjörnuhimininn þegar Maus sigraði Músíktilraunir árið 1994. Með þeirri sveit komu út fimm breiðskífur og safnplata en sveitin hefur í raun aldrei hætt. Birgir Örn gaf út sólóplötuna Id árið 2006 en minna hefur farið fyrir honum á tónlistarsviðinu hin síðustu ár.
Sindri Már Sigfússon (Seabear) er þrjátíu og sjö ára gamall. Sindri Már er forsprakki hljómsveitanna Sin fang (bous) og Seabear og hefur gefið út fjöldann allan af plötum undir þeim nöfnunum en hann hefur einnig unnið með tónlistarfólki á borð við Sóleyju, Snorra Helgasyni, Múm og fleiri.
Hrafn Pálsson píanó- og bassaleikari hefði átt afmæli á þessum degi en árið 2016 áttræður að aldri, hann lék með ýmsum þekktum hljómsveitum á árum áður, Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, SOS tríóinu og Hljómsveit Svavars Gests svo fáeinar séu hér upp taldar. Hrafn var einnig virkur í félagsmálum tónlistarmanna, var meðal annars í stjórn FÍH og STEF.
Róbert A. Ottósson (Robert Abraham) (1912-74) átti einnig afmæli á þessum degi, hann var Þjóðverji sem kom hingað til lands á fjórða áratug síðustu aldar. Hann var hámenntaður tónlistarmaður en starfaði hér fyrst og fremst sem kórstjórnandi og tónlistarkennari sem gerði miklar kröfur til sjálfs síns og annarra.
Og að síðustu skal nefna stórsöngvarann Hauk Morthens sem allir þekkja auðvitað en hann átti einnig afmæli þennan dag. Haukur, sem fæddist 1924, söng með mörgum af þekktustu hljómsveitum samtímans, söng á tugum hljómplatna allt frá 78 snúninga plötum til geisladiska og er af mörgum talinn á hæsta stalli íslenskrar tónlistarsögu hvað dægurlagasöng varðar. Haukur lést 1992 eftir baráttu við krabbamein.