Vorboðinn (1947-)

Vorboðinn

Vorboðinn er líkast til með elstu starfandi kórum á landsbyggðinni en ekki liggur þó fyrir hvort hann hefur starfað samfleytt allan tímann frá árinu 1947 þegar hann var settur á laggirnar. Kórinn var reyndar ekki stofnaður formlega fyrr en í janúar 1948 en aðal hvatamenn að stofnun hans voru hjónin Magnús Rögnvaldsson og Elísabet Guðmundsdóttir í Búðardal.

Fyrstur til að stjórna Vorboðum var Kristján Einarsson en meðlimir kórsins voru á annan tug í upphafi. Kristján stjórnaði kórnum í nokkur ár en aðrir stjórnendur hans hafa verið Magnús Jónsson, Kjartan Eggertsson og Halldór Þorgils Þórðarson, engar heimildir finnast um fleiri stjórnendur.

Frá árinu 1948 var kórinn kirkjukór Hjarðarholtskirkju í Dölum og innti það hlutverk af hendi í um fjóra áratugi. Kórinn hefur þó sungið við fjöldann allan af tækifærum bæði í heimabyggð og utan hennar. Í tíð Kjartans Eggertssonar sem var skólastjóri tónlistarskólans í Búðardal og mikill tónlistarfrömuður þar í bæ, var gefin út plata sem bar heitið Vor í Dölum. Vorboðinn söng þar sjö lög eða um þriðjung laganna á plötunni.

Kórinn er að öllum líkindum enn starfandi í Búðardal.

Efni á plötum