Hrafn Pálsson (1936-2016)

hrafn-palsson

Hrafn Pálsson

Hrafn Pálsson var áberandi í tónlistar- og skemmtanalífi Íslendinga á árunum milli 1960 og 1980 en eftir að hann sneri baki við tónlistinni tók hann að mennta sig í félagsráðgjöf og starfaði síðan við heilbrigðisráðuneytið, m.a. við deildarstjórnun.

(Sigurður) Hrafn Pálsson (f. 1936) var sonur Páls Kr. Pálssonar orgelleikara og fékk því tónlistina beint í æð en móðir hans var einnig viðloðandi tónlist. Hann kom fyrst við tónlistarsögu í barnaskóla, líklega 1948 (aðeins tólf ára gamall) en þá kom hann fram á skemmtun í Miðbæjarskólanum með SOS tríóinu sem samanstóð af honum sjálfum en hann lék á gítar, Ólafi Stephensen harmonikkuleikara og Stefáni Stefánssyni gítarleikara (syni Stefáns Íslandi), nafn tríósins var myndað úr upphafsstöfum þeirra.

Hrafn var mjög öflugur á yngri árum og á þrítugs aldri lék hann á píanó og bassa með ýmsum sveitum, t.d. hljómsveitum Bjarna Böðvarssonar og Svavars Gests, einnig var hann með eigið tríó á Akureyri kennt við hann sjálfan og um 1960 starfaði hann með Leiktríóinu í Þjóðleikhúskjallaranum. Um svipað leyti lék hann einnig með Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar og lék m.a. á plötum Erlings Ágústssonar þar sem lögin Oft er fjör í Eyjum og Þú ert ungur enn, var að finna. Aftur var Hrafn með eigið tríó 1960 og 61, og um vorið 1961 stofnaði hann Krummakvartettinn sem starfaði um skeið.

Hrafn var alltaf viðloðandi lausamennsku í tónlistinni og kom þar víða við, hann lék t.a.m. með Hljómsveit Sverris Garðarssonar og Rómeó kvartettnum svo dæmi séu tekin, hann kom einnig við sem söngvari og söng t.d. með Tríói Einars Loga 1966. Hann starfrækti aftur eigin sveit 1967 en var síðan í nokkur ár með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar. Með Ragnari fór Hrafn einnig að starfa sem annars konar skemmtikraftur, fór oft með gamanmál og samdi texta þ.a.l., hann samdi ennfremur annars konar texta og jafnvel lög en textar hans komu m.a. út á plötu Ragnars Bjarnasonar, 1971.

Hrafn hóf að leggja meiri áherslu upp úr þessu á skemmtikraftinn í sér og kom fram á alls kyns skemmtunum ásamt Karli Einarssyni eftirhermu, áðurnefndum Ragnari Bjarna og Jörundi Guðmundssyni en þeir tveir áttu eftir að vinna saman í útvarpi síðar með skemmtiþættina Allt í grænum sjó og Allt í einni kös, hann samdi einnig alls kyns skemmtiefni sem flutt hefur verið á sviði. Hrafn sá síðar einnig um annars konar dagskrárgerð í útvarpi, í formi tónlistarþátta.

Haustið 1973 kom út skemmtiplatan Skaup 73 en á þeirri plötu átti Hrafn stóran þátt, samdi alla texta og söng en það var í fyrsta skipti sem söngur Hrafns heyrðist á plötu. Fljótlega upp úr því hvarf hann að mestu úr tónlistargeiranum en varð áberandi í nokkur ár á eftir í útvarpi.

Hrafn var ötull baráttumaður fyrir réttindamálum tónlistarmanna og starfaði á tímabili fyrir FÍH og STEF, hjá STEFi ritstýrði hann um tíma tímaritinu Tónamálum, einnig vann hann að félagsstörfum fyrir Jazzklúbb Hafnarfjarðar og Jazzklúbb Reykjavíkur, en hann hefur alltaf verið áhugamaður um djasstónlist.

Í seinni tíð var Hrafn lítt áberandi en hann kom þó fram á djasshátíð árið 1990 með Sveiflusextettnum, einnig lét hann verða að því að gefa út tónlistina úr söngleik sem hann samdi sjálfur, en hann bar heitið Völlurinn og kom út 1996. Völlurinn hefur þó aldrei verið settur á svið. Hrafn lést haustið 2016, áttræður að aldri.

Þrátt fyrir að Hrafn hafi verið öflugur á tónlistarsviðinu á árum áður er hljóðfæraleik hans óvíða að finna á plötum, lög hans og einkum textar hafa þó komið út á plötum, síðast þrjú lög eftir hann á plötunni Íslensk-dönsk flétta, sem Stórsveit Reykjavíkur gaf út í minningu Gunnars Ormslev 2004.

Efni á plötum