Woofer (1997-98)

Woofer í upphafi

Hafnfirska hljómsveitin Woofer vakti nokkra athygli rétt fyrir aldamótin síðustu en sveitin sendi þá á skömmum tíma frá sér smáskífu og breiðskífu, sveitin ól af sér tónlistarfólk sem síðan hefur staðið í fremstu röð.

Sveitin var stofnuð í ársbyrjun 1997 í Hafnarfirði en hlaut ekki nafn fyrr en rétt áður en hún sté á svið í Músíktilraunum Tónabæjar þá um vorið. Meðlimir Woofer voru þá Egill Örn Rafnsson trommuleikari, Hildur Guðnadóttir söngkona, Ómar Freyr Kristjánsson bassaleikari og Kristinn Alfreð Sigurðsson gítarleikari. Tvö þeirra eru börn þekktra tónlistarmanna, Egill sonur Rafns Jónssonar (Rabba) trommuleikara og plötuútgefanda, og Hildur dóttir Guðna Franzsonar klarinettuleikara.

Woofer sem lék tónlist í rokkaðri kantinum komst í úrslit Músíktilraunanna, náði reyndar ekki á verðlaunapall en vakti þó nokkra athygli. Í kjölfarið fór sveitin í hljóðver enda voru heimatökin hæg á þeim bæ þar sem Egill hafði aðgang að hljóðveri í gegnum föður sinn og í framhaldi af því sendu þau frá sér þriggja laga smáskífuna Táfýlu sem kom út á vegum R&R músík snemma sumars.

Titillag smáskífunnar náði nokkrum vinsældum og sveitin var dugleg að koma sér á framfæri með spilamennsku víða um höfuðborgarsvæðið en hún hélt útgáfutónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Platan fékk ágætis dóma í Morgunblaðinu og DV.

Woofer

Strax um sumarið héldu þau fjórmenningarnir áfram að vinna nýja tónlist og fleiri lög voru tekin upp síðsumars fyrir breiðskífu, lögin sömdu þau í sameiningu en Árný Jónasdóttir vinkona þeirra var dugleg að leggja þeim til texta. Eftir að upptökum lauk hætti Kristinn gítarleikari og kom Benedikt Hermann Hermannsson inn í stað hans, þau Hildur höfðu áður starfað saman í hljómsveitinni Mósaík.

Platan sem bar nafn sveitarinnar, kom út um haustið á vegum R&R músík og var tíu laga. Hún hlaut þokkalega dóma í Degi en varla nema sæmilega í Morgunblaðinu. Sveitin fylgdi henni nokkuð eftir um haustið og veturinn með spilamennsku og lög með sveitinni komu aukinheldur út á safnplötunum Flugan #1, Fire and ice: Music from Iceland og The World of Icelandair. Minna fór svo fyrir sveitinni um sumarið 1998 og svo virðist sem Woofer hafi verið hætt um haustið en um það leyti kom hluti sveitarinnar við sögu á sólóplötu Ragnars Sólberg, yngri bróður Egils trommara.

Sögu Woofer lauk þar með því að hún hvarf nokkurn veginn jafn snögglega á sjónarsviðinu og hún birtist þar. Þrír meðlima hennar hafa síðan verið nokkuð áberandi í íslensku tónlistarlífi, Egill trommari var nokkuð í sviðsljósinu með hljómsveitum eins og Buttercup, Ber, Noise og Sign, Benedikt gítarleikari varð þekktur sem Benni Hemm Hemm og hefur gefið út plötur undir því nafni, og Hildur sem í dag er þekkt tónskáld og sellóleikari hefur starfað með sveitum eins og múm, Rúnk og Úlpu auk fjölda annarra tónlistarmanna og hefur jafnfram sent frá sér nokkrar sólóplötur, þ.á.m. með kvikmyndatónlist.

Efni á plötum