Félag áhugamanna um klassíska gítartónlist [félagsskapur] (1973-76)

Frá stofnfundi FÁKG haustið 1973

Haustið 1973 var stofnaður félagsskapur í Reykjavík undir yfirskriftinni Félag áhugamanna um klassíska gítartónlist (FÁKG / F.Á.K.G.) en stofnmeðlimir sem voru á bilinu tuttugu til þrjátíu, voru flestir af fyrstu og annarri kynslóð slíkra gítarleikara hérlendis.

Formaður FÁKG var Kjartan Eggertsson og Jón Ívarsson ritari en þeir tveir voru hvað virkastir í starfsemi félagsins, annað stjórnarfólk var Pálli Torfi Önundarson, Katrín Guðjónsdóttir og Símon H. Ívarsson. Félagið hafði að markmiði að efla klassískan gítarleik hér á landi með tónlistar- og kynningarfundum, koma upp nótna- og bókasafni, standa fyrir tónleikahaldi o.fl.

FÁKG var í fyrstu lokaður hópur gítarleikara sem hafði verið við nám í klassískum gítarleik en félagið taldi fljótlega um fjörutíu manns, þrátt fyrir að opnað yrði fyrir almennri inngöngu í félagið 1975 fjölgaði meðlimum þess ekki að marki og smám saman fjaraði undan því, síðasti fundurinn var líklega haldinn haustið 1976 en þá hafði starfsemin verið nokkuð stopul um tíma þrátt fyrir tilraunir þeirra Kjartans og Jóns.