Félag harmonikuleikara í Reykjavík [félagsskapur] (1936-48)

Auglýsing frá Félagi harmonikuleikara

Á árunum 1936-48 starfaði félagsskapur á höfuðborgarsvæðinu undir heitinu Félag harmonikuleikara í Reykjavík, auk þess að vera hagsmunasamtök harmonikkuleikara stóð félagið fyrir dansleikjum og tónleikum.

Félag harmonikuleikara í Reykjavík var stofnað haustið 1936 og voru stofnmeðlimir níu talsins. Fyrstu stjórnina skipuðu þeir Hafsteinn Ólafsson formaður, Guðmundur Bjarnleifsson ritari, Magnús Helgason gjaldkeri og Jón Ólafsson varaformaður. Meðal stofnmeðlima má nefna Ólaf B. Þorvaldsson, Róbert Bjarnason og Braga Hlíðberg en sá síðast taldi átti þrettán ára afmæli um svipað leyti og félagið var stofnað.

Félagið sem var fyrsta harmonikkufélagið hérlendis gegndi margvíslegu hlutverki, því var ætlað að standa vörð um kjaramál harmonikkuleikara, koma á kennslu í harmonikkuleik, halda dansleiki og tónleika o.fl. Til að fá inngöngu þurfti að gangast undir inngöngupróf hjá sérstakri prófnefnd en félagið hafði aðstöðu í samkomuhúsinu Bárubúð (Bárunni) við Vonarstræti, þar var einnig haldin á vegum félagsins fyrsta harmonikkukeppnin hérlendis vorið 1939 en hana sigraði áðurnefndur Bragi Hlíðberg, þá aðeins fimmtán ára gamall. Slík keppni var ekki haldin aftur.

Dansleikir Félags harmonikuleikara í Reykjavík voru iðulega haldnir í Oddfellowhúsinu en einnig í KR-húsinu og víðar, þetta voru fjölsóttar og vinsælar samkomur enda léku þar allt upp í fimmtán manna hljómsveitir. Með komu bresku og síðar bandarísku setu- og herliðanna breyttist tónlistin á styrjaldarárunum og smám saman tók hún á sig alþjóðlegri blæ, það hefur án vafa átt nokkurn þátt í að harmonikkan hlaut að víkja að einhverju leyti og þó að félagsskapurinn lifði styrjaldarárin af dró nokkuð úr starfseminni eftir því sem árin liðu og dansleikjum og öðrum uppákomum á vegum þess fækkaði. Síðasti dansleikurinn undir merkjum félagsins var líkast til árið 1948 og eftir það lognaðist það endanlega útaf. Ekki var þá starfandi harmonikkufélag í Reykjavík fyrr en á áttunda áratugnum þegar nokkurs konar harmonikkuvakning varð með stofnun slíkra félaga um land allt.