Félag harmonikuunnenda á Suðurnesjum [félagsskapur] (1990-)

Nokkrir af stofnfélögum Félags harmonikuunnenda á Suðurnesjum

Félag harmonikuunnenda á Suðurnesjum er félagsskapur sem hefur verið starfræktur síðan 1990 en heimavöllur starfseminnar er í Keflavík.

Félagið var stofnað í ársbyrjun 1990 en þá hafði lengi staðið til að stofna slíkan félasskap. Á fimmta tug stofnmeðlima komu að félaginu í upphafi en meðlimafjöldi þess hefur verið rokkandi í gegnum tíðina. Ásgeir Gunnarsson var fyrsti formaður þess en síðan þá hafa Kristinn Kaldal, Hörður Jóhannsson Gestur Friðjónsson, Þórólfur Þorsteinsson og líklega fleiri gegnt því embætti.

Markmið félagsins hefur verið að vinna að framgangi harmonikkunnar á Suðurnesjunum og hefur það verið gert með ýmsum hætti, s.s. að taka virkan þátt í skemmtanalífi svæðisins en harmonikkuleikarar úr félaginu hafa t.d. tekið þátt í bæjarhátíðum eins og Ljósanótt í Keflavík, Sandgerðisdögum og Sólseturhátíð í Garði, þá hefur félagið ennfremur staðið fyrir ýmsum tónlistartengdum skemmtunum, haldið dansleiki og skemmtikvöld ásamt Karlakór Keflavíkur og síðast en ekki síst heimsótt hjúkrunar- og dvalarheimili, félagsstöðvar, skóla og fyrirtæki og skemmt þar með tónlistarflutningi. Þá er vert að nefna að félagið hefur gefið Tónlistarskólanum í Reykjanesbæ harmonikkur til handa ungu tónlistarfólki.

Árið 2008 var landsmót harmonikkuleikara haldið í Reykjanesbæ og hélt Félag harmonikuunnenda á Suðurnesjum utan um það mót, við það tækifæri var dagskrá mótsins kvikmynduð og síðan gefin út í átta diska DVD-útgáfu. Það sama ár sendi félagið frá sér plötuna Harmonikan hljómi, með tónlist félagsmanna en hljómsveitir hafa alla tíð verið starfandi innan þess. Árið 2011 hlaut félagsskapurinn menningarverðlaun Suðurnesja, Súluna fyrir framlag sitt til menningarlífs bæjarbúa.

Félag harmonikuunnenda á Suðurnesjum er enn starfandi og þar er blómlegt félagsstarf eftir því sem næst verður komist.

Efni á plötum