Fílapenslarnir (1990-2010)

Fílapenslar Siglufjarðar

Fílapenslarnir (einnig nefndir Fílapenslar Siglufjarðar) var hópur fólks á Siglufirði sem skemmti bæjarbúum þar og annars staðar um tveggja áratuga skeið í kringum síðustu aldamót. Ýmist var um að ræða hljómsveit, sönghóp eða bara hóp skemmtikrafta sem gegndi ámóta hlutverki og Spaugstofan gerði þá sunnan heiða, og kom fram með leik- og söngatriði.

Fílapenslarnir voru stofnaðir árið 1990 og hófu þá fljótlega að koma fram á Siglufirði, héldu t.a.m. árlegar skemmtanir í heimabænum um nokkurra ára skeið en einnig voru þeir fastir gestir á Síldarævintýrinu á Siglufirði sem haldið var um verslunarmannahelgina. Þá komu Fílapenslarnir nokkuð fram á skemmtunum utan heimabyggðar og urðu m.a.s. svo frægir að koma fram í þættinum Á tali hjá Hemma Gunn.

Fílapenslarnir störfuðu ekki alveg samfleytt og voru eitthvað misjafnlega skipaðir hvað mannskap snertir, Tómas Kárason, Friðfinnur Hauksson, Guðbrandur Gústafsson, Gottskálk Kristjánsson, Steinunn Hulda Marteinsdóttir, Magnús Ólafsson, Sturlaugur Kristjánsson, Ólafur Kárason, Þorsteinn Sveinsson, Sigríður Vigfúsdóttir og Hörður Júlíusson skipuðu hópinn, sumir skemur en aðrir þó og e.t.v. komu fleiri við sögu.

Fílapenslarnir 1998

Fílapenslarnir sendu frá sér kassettu árið 1993 og bar hún titilinn Fílapenslar Siglufjarðar, á henni var að finna fimmtán lög úr ýmsum áttum en hún var síðan endurútgefin 2004 á geisladisk og um svipað leyti kom út önnur útgáfa, Fílapenslar Siglufjarðar á sviði – fjórtán laga plata með svipuðu sniði og hin fyrri.

Fílapenslarnir störfuðu sem fyrr segir ekki alveg samfleytt en hópurnn virðist hafa komið fram síðast árið 2010.

Efni á plötum