Fjórir félagar [1] (1943-47)

Söngkvartett, Fjórir félagar, starfaði á árunum 1943 til 47 í Reykjavík en meðlimir hans höfðu áður verið skólafélagar í Menntaskólanum á Akureyri.

Það voru þeir Sverrir Pálsson, Þorvaldur Ágústsson, Eyþór Óskar Sigurgeirsson og Magnús Árnason sem skipuðu kvartettinn sem stofnaður var haustið 1943, Guðmundur Ámundason tók síðan við af þeim síðast talda en allir voru þeir meðlimir í Karlakór Reykjavíkur.

Fjórir félagar komu fram við ýmis tækifæri, sungu t.a.m. yfirleitt við 1. des. hátíðarhöld stúdenta, árshátíðum, stjórnmálasamkomum, oft á tónleikum og einnig í útvarpssal o.fl. en kvartettinn hafði alls á annað hundrað laga tiltæk til flutnings. Guðmundur K. Jóhannsson og síðar Páll Kr. Pálsson önnuðust undirleik hjá kvartettnum, sem starfaði til ársins 1947.