Fjórir fjörugir [1] (1958-61)

Fjórir fjörugir

Hljómsveitin Fjórir fjörugir starfaði yfir sumartímann á Siglufirði nokkur sumur í kringum 1960 meðan síldin var enn úti fyrir landi og bærinn iðaði af lífi.

Nokkuð óljóst er hvenær Fjórir fjörugir tóku til starfa undir þessu nafni en að minnsta kosti hluti sveitarinnar hafði leikið saman undir nafninu Tónatríó nokkur sumur á undan, heimildir eru síðan nokkuð misvísandi um hvort nýja nafnið (Fjórir fjörugir) var tekið upp 1958 eða síðar.

Meðlimir Fjögurra fjörugra voru þeir Hlöður Freyr Bjarnason píanóleikari, Sverrir Sveinsson trommuleikari, Steingrímur Lilliendahl gítarleikari og Steingrímur Haraldur Guðmundsson klarinettu-, saxófón- og harmonikkuleikari en sumarið 1960 bættist í hópinn ungur og efnilegur söngvari á sextánda ári, Þorvaldur Halldórsson sem síðar átti eftir að slá í gegn með Hljómsveit Ingimars Eydal og víðar síðar. Sumarið 1961 lék Kristinn Vilhelmsson einnig með sveitinni en hann hafði þá orðið eftir á Siglufirði þegar félagar hans úr Neó kvartettnum höfðu farið suður að lokinni spilatörn nyrðra. Fleiri gætu hafa komið við sögu sveitarinnar.

Fjórir fjörugir höfðu yfirið nóg að gera við spilamennsku í síldarbænum þessi sumar og munu hafa leikið á dansleikjum allt að fimm eða sex sinnum í viku enda var bærinn stútfullur af fólki sem þyrsti í skemmtun milli vinnutarna, sveitin lék mestmegnis á Hótel Höfn og Alþýðuhúsinu og þegar Tjarnarbúð, samkomuhús Ólafsfirðinga var vígt sumarið 1961 urðu þeir félagar fyrst hljómsveita til að leika þar.

Sumarið 1961 var hið síðasta í sögu Fjögurra fjögugra.