Ískórinn (1988-)

Kór Íslendingafélagsins í Osló 1989

Ískórinn svokallaði er kór sem starfræktur hefur verið um árabil í samfélagi Íslendinga í Osló í Noregi.

Kórinn var stofnaður 1988 og gekk framan af undir nafninu Kór Íslendingafélagsins í Osló og síðar Kór Íslendinga í Osló en hin síðari ár hefur hann gengið undir Ískórs-nafninu.

Svo virðist sem Ískórinn hafi ekki starfað alveg samfleytt og er nokkurra ára bil í sögu kórsins líklega á árunum 1990-95 en þá var hann endurvakinn. Ekki liggur fyrir hver stjórnaði kórnum í upphafi en Brynhildur Auðbjargardóttir var stjórnandi hans um árabil á tíunda áratugnum og hugsanlega lengur, hún var t.d. stjórnandi kórsins þegar hann tók þátt í kóramóti íslenskra kóra í Lundi í Svíþjóð sumarið 2001 en afrakstur þess móts var hljóðritaður og gefinn út á plötu sem bar heitið Íslenskt kóramót í Lundi 2001: Laugardaginn 11. mars 2001, kórinn söng þar þrjú lög.

Upplýsingar vantar um stjórnanda/stjórnendur kórsins framan af þessari öld en Gísli Jóhann Grétarsson hefur stjórnað honum síðustu árin, frá árinu 2012.