Íslandslög [safnplöturöð] (1991-)

Íslandslög er safnplötusería sem fyrir löngu hefur fest sig í sessi sem vinsæll kostur fyrir áhugafólk sem ann eldri íslenskri tónlist í flutningi vinsælla söngvara í léttum poppútsetningum. Söngvarar eins og Sigríður Beinteinsdóttir, Ragnar Bjarnason, Egill Ólafsson, Guðrún Gunnarsdóttir, Bergþór Pálsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) og Björgvin Halldórsson (sem jafnframt hefur haldið utan um útgáfuna) hafa þannig haldið gömlum slögurum á lofti hvort sem þeir teljast vera dæmigerð íslensk einsöngslög eða dægurlagaperlur.

Serían var sett á laggirnar árið 1991 þegar Skífan gaf út fyrstu plötuna en hún bar heitið Íslandslög / Songs of Iceland. Hún hlaut ágætar viðtökur og í kjölfarið kom Íslandslög 2 / Songs of Iceland 2 árið 1994 og Íslandslög 3 / Songs of Iceland 3 (1996) áður en plöturnar þrjár voru gefnar út undir titlinum Íslandslög 1 + 2 + 3 sama ár. Útgáfa platnanna hélt áfram í svipuðum dúr, Íslandslög 4 / Songs of Iceland 4 kom út 1999 og Íslandslög 5: Í kirkjum landsins / Songs of Iceland 5 árið 2000 en sú síðarnefnda kom út í tengslum við þúsund ára afmæli kristnitöku á Íslandi, hún var jafnframt tileinkuð minningu tónlistarmannsins Magnúsar Ingimarsson sem lést þá um vorið.

Undir bláhimni: Íslandslögin var eins konar aukaútgáfa í seríunni sem kom út árið 2002 en hún var gefin út undir merkjum Íslenskra tóna, undirútgáfu Senu (áður Skífunnar), í kjölfarið komu svo Íslandslög 6 / Songs of Iceland 6 (2003) sem var tileinkuð Hauki Morthens, og Íslandslög 7 / Songs of Iceland / (2007) en það sama ár komu út fyrst sex plöturnar í vönduðum pakka undir titlinum Íslandslög 1-6 / Songs of Iceland 1-6. Annar og aukinn slíkur pakki, Íslandslög 1-7 / Songs of Iceland 1-7 hefur ennfremur verið gefinn út auk plötunnar 40 songs of Iceland sem kom út 2016 sem 25 ára afmælisútgáfa en á þeirri plötu er söngur Björgvin sjálfs í forgrunni.

Íslandslagaserían hefur ekkert síður verið hugsað fyrir erlenda ferðamenn en Íslendinga sem unna sígildum perlum í vönduðum búningi, og þeir hafa verið duglegir að versla plöturnar.

Efni á plötum