Íslandstónar [safnplöturöð] (1996-98)

Umslag Íslandstóna 3

Íslandstóna-röðin getur strangt til tekið varla talist safnplötusería þar sem hinir sömu þrír sjá að mestu leyti um hljóðfæraleik á þremur plötum í seríunni sem komu út á árunum 1996 til 98.

Það var Torfi Ólafsson sem var maðurinn á bak við Íslandstóna, gaf plöturnar út og samdi fjölmörg lög sem fóru á plöturnar þrjár, að öðru leyti var uppistaðan á plötunum þekktar íslenskar dægurlagaperlur leiknar án söngs en flautur Martial Nardeau voru áberandi laglínuberar, og reyndar munu þetta vera fyrstu íslensku plöturnar sem höfðu að geyma svokallaða panflautumúsík, Tryggvi Hübner gítarleikari og Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari voru hinir tveir.

Íslandstóna-plöturnar urðu alls þrjár, allar fengu þær þokkalega dóma hjá gagnrýnendum dagblaðanna þótt flestir væru á þeirri skoðun að tónlistin skyldi lítið eftir sig og væri eins konar lyftutónlist. Þess má og einnig geta að lög af fyrstu plötunni komu við sögu sem bakgrunnur með ljóðalestri Magnúsar Magnússonar á plötunni Poems and melodies from Iceland, sem Torfi gaf einnig út og var ætlaður erlendum ferðamönnum.

Efni á plötum