Samband íslenskra lúðrasveita [félagsskapur] (1954-)

Merki Sambands íslenskra lúðrasveita

Frá því um miðjan sjötta áratug síðustu aldar hefur verið starfrækt landssamband lúðrasveita hér á landi enda er lúðrasveitarformið elsta hljómsveitarformið í íslenskri tónlistarsögu en fyrsta hljómsveit þeirrar tegundar var sett á laggirnar vorið 1876 þegar Helgi Helgason stofnaði Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur.

Undirbúningur hafði staðið frá árinu 1946 að stofnun þessara samtaka sem þá yrði samstarfsvettvangur fyrir lúðrasveitir landsins en hugmyndin mun upphaflega hafa verið komin frá Karli O. Runólfssyni tónskáldi, þegar Samband íslenskra lúðrasveita (SÍL / S.Í.L.) var svo stofnað sumarið 1954 í Hljómskálanum í miðbæ Reykjavíkur var við hæfi að hann yrði fyrsti formaður félagsins.

Tilgangurinn með stofnun sambandsins var að vinna að hvers kyns málum lúðrasveita í landinu, þ.e. þeim aðildarfélögum sem hygðust starfa innan sambandsins, halda utan um landsmót lúðrasveita, annast nótnaútgáfu og fleira. Síðar komu annars konar og fjölbreyttari verkefni á borð SÍL s.s. lagasamkeppnir sem félagið hélt utan um, stofnun Stórlúðrasveitar S.Í.L., plötuútgáfa, Lúðrasveitadagurinn í samstarfi við Samand íslenskra skólalúðrasveita og jafnvel bókaútgáfa en árið 1984 kom út saga lúðrasveita á Íslandi undir titlinum Skært lúðrar hljóma, á þrjátíu ára afmæli sambandsins. Árið 1989 kom út plata á vegum SÍL þar sem hefur að geyma leik ellefu aðildarlúðrasveita sambandsins auk þess sem Stórlúðrasveit S.Í.L. leikur á henni, platan ber nafnið Landið hljómar.

Frá landsmóti SÍL

Karl O. Runólfsson var sem fyrr segir fyrsti formaður Sambands íslenskra lúðrasveita og gegndi því embætti í áratug, aðrir formenn hafa verið Halldór Einarsson, Reynir Guðnason, Karl Guðjónsson, Eiríkur Rósberg, Guðrún Gylfadóttir, Borgar Jósteinsson, Vilborg Jónsdóttir, Runólfur Einarsson, Lárus H. Grímsson, Ásdís Þórðardóttir og nú síðast Páll Pálsson, upplýsingar vantar hins vegar um formenn síðasta áratug 20. aldarinnar og byrjun þeirrar tuttugustu.

Samband íslenskra lúðrasveita nýtur ekki árlegra ríkisstyrkja en hefur stundum hlotið starfsstyrki frá hinu opinbera, einnig frá öðrum aðilum. Þá er félagið aðili að NoMU – Nordisk musik union en það eru nokkurs konar regnhlífarsamtök áhugamanna um tónlist á Norðurlöndunum.

Efni á plötum