Stórlúðrasveit S.Í.L. (1955-)

Stórlúðrasveitin spilar í Almannagjá 1966

Allt frá árinu 1955 hefur verið hefð á landsmótum Sambands íslenskra lúðrasveita (S.Í.L.) að allar lúðrasveitir á staðnum tækju lagið saman, en sambandið var stofnað árið 1954. Þessi sameiginlega sveit hefur lengst af óformlega gengið undir nafninu Lúðrasveit Íslands en fleiri nöfn hafa einnig verið notuð s.s. Lúðrasveit S.Í.L., Lúðrasveit Sambands íslenskra lúðrasveita og Stórlúðrasveit S.Í.L. sem notað er í þessari umfjöllun, enda er það nafnið sem notað var á plötunni Landið hljómar sem Samband íslenskra lúðrasveita gaf út í tilefni af landsmóti lúðrasveita í Vestmannaeyjum 1989, sveitin átti tvö lög á þeirri plötu.

Þessi hljómsveit hefur eins og gefur að skilja verið æði misjöfn að stærð enda hefur það farið eftir fjölda þátttökusveita á landsmótunum hverju sinni, á fyrsta landsmótinu sem haldið var í Reykjavík sumarið 1955 léku t.a.m. um hundrað hljóðfæraleikarar í sveitinni undir stjórn Alberts Klahn en tveimur árum síðar á Akureyri voru um hundrað og fimmtíu í henni (undir stjórn Jakobs Tryggvasonar), síðan hefur talan hækkað verulega og yfirleitt verið líklega um þrjú hundruð talsins og lúðrasveitirnar á annan tug. Á landsmóti sem haldið var á Selfossi 1966 þótti fréttnæmt að tvær stúlkur voru meðal hljóðfæraleikaranna, þeim hefur fjölgað mikið síðan þá. Ýmsir stjórnendur hafa komið að stjórnun sveitarinnar, oft hafa menn skipt með sér verkum en meðal annarra má hér nefna Kjartan Óskarsson, Geirharð Valtýsson, Sæbjörn Jónsson og Ellert Karlsson.

Sem fyrr segir kom sveitin við sögu á plötu sem gefin var út í tilefni af landsmótinu 1989 og sjálfsagt hefur oft verið gefinn út diskur (óopinber útgáfa) að loknum slíkum samkomum, sveitin kemur þó einnig við sögu á plötunni Undurfagra ævintýr (1991) sem hafði að geyma lög Oddgeirs Kristjánssonar en þar leikur hún m.a. syrpu með lögum tónskáldsins í útsetningu Ellerts Karlssonar sem stjórnaði sveitinni á þeirri plötu auk Kjartans Óskarssonar.