Síðasta lag fyrir fréttir [annað] (1930-)

Dagskrárliðurinn Síðasta lag fyrir fréttir er án nokkurs vafa elsti dagskrárliður útvarps hér á landi en hann hefur verið viðhafður hjá Ríkisútvarpinu nánast frá upphafi stofnunarinnar þótt vissulega hafi það ekki verið alveg samfleytt og án breytinga.

Það mun hafa verið á upphafsdögum Útvarpsins, nánar til tekið á sjöunda starfsdegi þess síðla árs 1930 sem fyrst var leikið lag á undan hádegisfréttunum en það mun hafa verið Kristján Kristjánsson sem söng við undirleik Emils Thoroddsen. Þetta var gert með nokkuð reglubundnum hætti að leikin væru einsöngs- eða kóralög fyrir fréttirnar og það var ekki fyrr en líklega árið 1940 að Pétur Pétursson útvarpsþulur kom þeirri hefð endanlega á.

Yfirleitt voru lögin íslensk og sungin af íslensku söngfólki en það var þó ekki algilt, eftir að Jón Leifs kom til sögunnar og barðist fyrir STEF sótti hann fast að lögin væru íslensk, bæði skóp það tekjur (STEF-gjöld) og var um leið til að kynna íslenska tónlist og koma henni á framfæri.

Síðasta lag fyrir fréttir varð þannig að hefð og flestum þótti hún ómissandi, á mörgum heimilum og vinnustöðum ríkti grafarþögn meðan á laginu stóð og víða var það til skemmtunar að giska á söngvarann, lagið, ljóðið eða jafnvel undirleikarann því lagið var aldrei kynnt fyrirfram heldur aðeins afkynnt. Íslendingar áttu marga frambærilega kóra, söngvara og söngkonur og því gat fjölbreytnin verið mikil dag frá degi. Framan af munu útvarpsþulirnir sjálfir hafa séð um að velja efnið en síðar komu sérstakir starfsmenn Ríkisútvarpsins til skjalanna sem sinntu því jafnvel um ára- eða áratuga skeið eins og Ingibjörg Þorbergs og Una Margrét Jónsdóttir, og á fyrstu dögum Rásar 2 var getraun í morgunútvarpinu þar sem sigurvegarinn fékk að velja síðasta lag fyrir fréttir á Rás 1.

Þegar Rás 2 tók til starfa haustið 1983 hélst hefðin áfram á Rás 1 og þar var hún nánast óbreytt þar til haustið 2014 að yfirmenn stofnunarinnar tóku þá ákvörðun að færa lagið framar í dagskrána, framan við leiknar auglýsingar þannig að liðurinn var þá í raun orðinn að Síðasta lagi fyrir auglýsingar. Sú ákvörðun varð vægast sagt umdeild og margar blaðagreinar voru ritaðar um það enda þótti mörgum þetta þægilegur siður fyrir hádegisfréttirnar 12:20, landskunnar konur og menn og Hollvinir Ríkisútvarpsins létu í sér heyra en allt kom fyrir ekki og þessu varð ekki breytt. Það fór því svo að hlustun á síðasta lag fyrir fréttir snarminnkaði mikið eftir þessa breytingu en auglýsingatekjur RÚV jukust að sama skapi. Í dag er enn einhvers konar síðasta lag fyrir fréttir í dagskránni en það á lítið skylt við hina áratugalöngu hefð sem flestir landsmenn höfðu alist upp við hvort sem þeir þoldu tónlistina eður ei.

Ýmsir aðilar hafa orðið til að nota hugtakið Síðasta lag fyrir fréttir, og hafa komið út plötur og lög undir þessum titli auk þess sem tónleikar og tónleikaraðir hafa borið hann og er þar iðulega vísað til tegundar tónlistarinnar, íslensk einsöngs- eða kóralög.