Jói á hakanum (1979-94)

Jói á hakanum

Spunasveitin Jói á hakanum var ekki meðal þekktustu hljómsveitanna sem störfuðu á tímum pönks og nýbylgju en hún varð hins vegar með þeim langlífustu þótt ekki starfaði hún alveg samfleytt. Og reyndast hefur sveitin verið að gefa út eldri upptökur á síðustu árum, bæði á efnislegu og stafrænu formi svo segja jafnvel mætti að hún sé á vissan hátt enn starfandi.

Jói á hakanum var stofnuð haustið 1979 af nokkrum nemendum í Menntaskólanum við Hamrahlíð og voru meðlimir hennar í upphafi Gunnar Grímsson hljómborðsleikari, Ragnar Ómarsson (sonur Ómars Ragnarssonar) trommuleikari, Jón Rúnar Arason söngvari, gítar- og hljómborðsleikari og Sveinn Ólafsson sem líklega var þá bassaleikari.

Tildrög þess að sveitin var stofnuð voru þau að svokallað reiðhjólarallý var haldið í Öskjuhlíðinni meðal nemenda skólans og var það kvikmyndað, hljómsveitin var í framhaldinu sett saman til að skapa tónlistarbakgrunn í myndinni sem gerð var. Sumir meðlima Jóa á hakanum höfðu aldrei leikið á hljóðfæri við stofnun hennar og því var einfaldast að telja bara í og byrja. Sveitin hóf æfingar í Norðurkjallara MH og voru þeir félagar duglegir frá upphafi að hljóðrita æfingarnar, þeir léku einhvers konar tilraunakennda spunatónlist þar sem menn skiptust gjarnan á hljóðfærum og léku jafnvel á heimatilbúin hljóðfæri. Þeir félagar tóku spunann alla leið og lögin hljómuðu ekki endilega eins tvenna tónleika í röð, jafnframt var það eins konar mottó hjá þeim framan af að spila ekki sama prógrammið tvisvar.

Tónlist Jóa á hakanum höfðaði ekki til allra og sveitin fékk framan af ekki sérlega jákvæða dóma í fjölmiðlum fyrir framlag sitt þegar þeir hófu að leika á tónleikum en þeir léku m.a. í MH, Hljómskálagarðinum og Norræna húsinu. Sveitin vakti athygli fyrir meira en tónlist sína, hún lék m.a. á tónleikum ásamt Þey snemma árs 1981 og á miðjum þeim tónleikum var gert hlé og nokkrum áhorfendum boðið í klippingu á sviðinu. Aldurstakmarkið á þeim tónleikum var fjörutíu ár og var skilyrði einnig að vera með skalla. Það er því ekki erfitt að sjá að hljómsveitin var nokkuð sér á báti.

Jói á hakanum starfaði með hléum og einhverjar mannabreytingar urðu í sveitinni, Sveinn var ekki lengi meðlimur hennar en Franz Einar Kristinsson kom inn í sveitina sem og gítarleikari að nafni Þórður Magnússon (1983) sem staldraði ekki lengi við. Á einhverjum tímapunkti kölluðu þeir sig einnig því sérstæða nafni Ananasmenning, en það nafn mun ekki hafa verið notað nema til skamms tíma. Ekki er vitað um frekar mannabreytingar í sveitinni.

Haustið 1984 flutti Jói á hakanum í fyrsta skipti frumsaminn spunasöngleik sem hlaut nafnið Friðarpípufaktorían en hann var síðan fluttur tvisvar í viðbót eftir það á næstu árum, örlítið aukinn og endurbættur í hvort skiptið. Kjartan Guðnason lék með sveitinni í síðasta skipti sem söngleikurinn var settur á svið (í Tónabæ) en hann var líkast til ekki meðlimur sveitarinnar. Það sama haust og söngleikurinn var fyrst settur á svið (1984) átti Jói á hakanum þrjú lög á safnsnældunni Rúllustiginn en það voru lengi einu útgefnu upptökurnar frá sveitinni.

Sveitin starfaði áfram allt til ársins 1994, undir það það síðasta gengu þeir félagar undir nafninu Regnhlífasamtök um almennan spuna (RAS) en þá var hljómsveitin að þróast yfir í að vera spunahópur og ekki endilega eingöngu tengdur tónlist. Síðar gekk sá spunahópur undir nafninu Spuni. Ekki er að sjá að meðlimir Jóa á hakanum hafi starfað áfram við tónlistarsköpun (nema undir Spuna-nafninu) en Jón Rúnar nam þó klassískan söng í framhaldinu, hann hefur ekki verið áberandi í þeim geira tónlistarinnar.

Nokkuð óvænt birtist plata með sveitinni árið 2003 en hún virðist hafa borið titilinn „diskur #i“ (skv. skráningu Landsbókasafnsins), platan hafði að geyma alls tuttugu og eitt lag – annars vegar tónleikaupptökur úr Norræna húsinu frá því í desember 1984 og hins vegar upptökur þar sem þeir Kjartan Kjartansson og Sveinbjörn Ö. Gröndal léku með sveitinni en þannig skipuð kallaðist hún Rjómi á klakanum.

Það var svo haustið 2019 þegar fjörutíu ár voru liðin frá reiðhjólarallýinu í Öskjuhlíðinni og þ.a.l. stofnun sveitarinnar, að meðlimir Jóa á hakanum dustuðu rykið af kvikmyndinni, birtu hana á Youtube og settu yfir hana eins konar „best of“ af tónlist sveitarinnar en upprunalega tónlistin virðist þá hafa verið löngu glötuð, þá hafði töluvert af efni sveitarinnar verið aðgengilegt á Soundcloud um tíma. Jói á hakanum er að líkindum ekki starfandi hljómsveit í dag en þeir félagar hafa verið duglegir síðustu árin að birta efni sveitarinnar frá því um miðjan níunda áratugnum og þar er af nógu að taka.

Efni á plötum