Benny Crespo’s gang (2003 – )

Benny Crespo's gang

Benny Crespo’s gang

Hljómsveitin Benny Crespo‘s Gang var stofnuð á Selfossi haustið 2003 af þeim Magnúsi Öder Kristinssyni bassaleikara (Stoneslinger), Helga Rúnari Gunnarssyni söngvara og gítarleikara, Magnúsi Guðmundssyni gítarleikara (Veðurguðirnir, Hölt hóra o.fl.) og Birni (Bassa) Sigmundi Ólafssyni trommuleikara (Stoneslinger, Envy of nova o.fl.), sá síðastnefndi er sonur Ólafs Þórarinssonar (Labba í Glóru).

Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir söngvari, gítar- og hljómborðsleikari (Lay Low) kom fljótlega inn og um svipað leyti hætti Magnús gítarleikari í sveitinni.
Sveitin lét fljótlega nokkuð að sér kveða í rokkgeiranum og tók m.a. þátt í hljómsveitakeppninni Global battle of the bands árið 2004 en undankeppni þeirrar keppni var í fyrsta skipti haldin hérlendis það árið.

Plata samnefnd hljómsveitinni kom út 2007 og vakti þá verulega athygli á sveitinni. Hún gekk undir nafninu Nashyrningsplatan vegna myndarinnar á plötuumslaginu, og fékk góða viðtökur, hún fékk t.a.m. góða dóma í Morgunblaðinu og Stúdentablaðinu og enn betri í tímaritinu Monitor. Fréttablaðið gaf henn ennfremur þokkalega einkunn. Fyrir vikið hlaut Benny Crespo‘s gang tilnefningar sem bjartasta vonin og fyrir plötu ársins á Íslensku tónlitarverðlaununum.

Þrátt fyrir þessa góðu athygli sem sveitin fékk fór lítið fyrir henni í kjölfarinu, einkum vegna þess að Lovísa (Lay Low) hefur einbeitt sér að sólóferli sínum og fyrir vikið hefur sveitin þurft að sitja nokkuð á hakanum.

Sveitin hefur þó aldrei hætt störfum þótt lítið fari fyrir henni á köflum, hún kom t.a.m. saman á Iceland Airwaves 2014.

Efni á plötum