Skólahljómsveit Neskaupstaðar (1974-90)

Skólahljómsveit Neskaupstaðar

Skólahljómsveit starfaði við Tónskólann í Neskaupstað um nokkurra ára skeið á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og setti heilmikinn svip þar á bæjarbraginn.

Tildrög þess að sveitin var stofnuð voru þau að veturinn 1972-73 var sett saman eins konar skólahljómsveit ellefu nemenda og eins kennara til að leika á vortónleikum tónlistarskólans undir stjórn Haraldar Guðmundssonar sem þá var skólastjóri skólans og mikill frumkvöðull í tónlistarlífi bæjarins. Þessi sveit, sem bæði var skipuð strengja- og blásaraleikurum mæltist vel fyrir og í kjölfarið var formlega stofnuð eiginleg skólahljómsveit sem tók til starfa haustið 1974 undir stjórn Haraldar.

Hljómsveitin lék og starfaði við góðan orðstír næstu árin en var þá blásarasveit og einnig stundum kölluð lúðrasveit tónlistarskólans, sveitin lék til að mynda á föstum hátíðahöldum í bænum, s.s. 1. maí samkomum, sjómannadaginn o.fl. og fór í tónleikaferðir um austan- og norðanvert landið, síðar einnig til Reykjavíkur (m.a. á Listahátíð í Reykjavík) og í eitt skipti til Danmerkur, sveitin kom einnig fram í sjónvarpi.

Þegar Haraldur lést haustið 1981 lagðist starf sveitarinnar niður um skeið en árið 1983 var hún komin á fullan skrið á nýjan leik undir stjórn Jóns Lundberg sem stjórnaði sveitinni til ársins 1990 en þá hætti hún líklega störfum.