Skólahljómsveitir Flensborgarskóla (um 1960-)

Skólahljómsveit Flensborgar

Innan Flensborgarskóla í Hafnarfirði hafa eins og víðast annars staðar verið starfandi hljómsveitir nemenda, ýmist í nafni skólans eða bara innan hans. Að minnsta kosti einu sinni hefur gefin út plata með úrvali tónlistar í tengslum við árshátíð skólans og einnig hefur komið út safnplata með bílskúrshljómsveitum sem gefin var út af skólablaði Flensborgar

Skólahljómsveit Flensborgarskóla (hún virðist hafa borið þetta nafn) var starfandi við Flensborgarskóla í Hafnarfirði veturinn 1979-80. Sveitin lék eitthvað opinberlega s.s. á tónleikum og flutti þá frumsamið efni og einnig er hugsanlegt að hún hafi komið við sögu á uppfærslu nemendafélags skólans á rokkóperunni Gulldrengjunum um vorið 1980. Meðlimir sveitarinnar voru Jón Rafn Bjarnason [söngvari og gítarleikari?], Hafsteinn Valgarðsson bassaleikari, Pétur Hlöðversson [?] og Jakob Már Böðvarsson [?].

Innan Flensborgarskóla höfðu áður eða allt frá því um 1960 verið starfandi hljómsveitir sem báru nöfn eins og Bendix og Skuggar og síðar komu misþekktar sveitir eins og Dosbaradjamm, Form áttanna, Botnleðja, PPPönk, Stolía Gáfnaljósin og Kátir piltar.

Enn fleiri hljómsveitir (og tónlistarfólk) komu svo við sögu á safnplötunni Drepnir sem ritstjórn Draupnis, skólablaðs Flensborgarskóla gaf út árið 1996 en ekki eru þær allar ættaðar úr skólanum. Og árið 2005 kom svo út plata í tengslum við árshátíð skólans en hún heitir einfaldlega Árshátíðardiskur Nemendafélags Flensborgarskólans 2005, og hefur að geyma úrval tónlistar með nemendum skólans. Ekki liggur fyrir hvort fleiri slíkar plötur hafi komið út á vegum Flensborgarskóla en upplýsingar um það væru vel þegnar sem og um skólahljómsveitir skólans.

Efni á plötum