
Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri 1996 – eldri hópur
Innan Tónlistarskólans á Akureyri (Tónlistarskóla Akureyrar) hefur jafnan verið blómlegt hljómsveitastarf og voru áttundi og níundi áratugur síðustu aldar einkar blómlegir hvað það varðar, erfitt er að henda reiður á fjölda þeirra því þær hafa verið af alls konar tagi og af ýmsum stærðum.
Tónlistarskólinn á Akureyri var stofnaður 1946 og þrátt fyrir að eiginleg skólahljómsveit hafi ekki verið formlega stofnuð fyrr en 1971 þá voru þó dæmi um samspil nemenda í strengjasveitum löngu fyrr, þannig var t.a.m. sjö manna strengjasveit sem lék undir stjórn Jakobs Tryggvasonar þáverandi skólastjóra á nemendatónleikum skólans vorið 1956 og vakti mikla athygli – svo mikla að sveitin var fengin til að leika aftur á 17. júní-skemmtun í miðbæ Akureyrar nokkrum vikum síðar. Einnig var starfandi strengjasveit (kvartett) við skólann árið 1958.
Þáttaskil urðu þegar Norðmaðurinn Roar Kvam kom til Akureyrar og hóf að kenna á blásturshljóðfæri haustið 1971 og í kjölfarið varð lúðrasveit skólans að veruleika og hún stofnuð, hún hélt sína fyrstu tónleika fyrir jólin og óx svo og dafnaði með árunum. Sveitin gekk ýmist undir nafninu Skólahljómsveit, Lúðrasveit eða Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri og árið 1978 fór hún í sína fyrstu tónleikaferð til útlanda en þá var ferðinni heitið til Danmerkur og Noregs þar sem sveitin lék á nokkrum tónleikum. Þremur árum síðar fór sveitin aftur utan og þá til Noregs á hljómsveitamót þar sem hún vann til verðlauna en þá skipuðu á fjórða tug nemenda sveitina. Þarna var komin hefð á lúðrasveitarstarfið og eftir því sem meðlimum sveitarinnar fjölgaði var bætt í starfið og brátt urðu blásarasveitirnar fjórar, þeim skipt eftir getu og var svokölluð D-blásarasveitin þar fremst í flokki. Sú sveit var löngum flaggskip skólans og fór enn á hljómsveitamót í Noregi og tónleikaferð um Norðurlöndin árið 1987 undir stjórn Kvam og Norman H. Dennis, og aftur árið 1989 þegar sveitin fór í tónleikaferð til Þýskalands og vann til verðlauna á hljómsveitahátíð í Hollandi. Árið 1991 var svo gefin út tuttugu ára afmælisplata með sveitinni undir titlinum Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri 20 ára 1991, hún var hljóðrituð í Stúdíó Stemmu af Sigurði Rúnari Jónssyni. Endalok blásarasveitarinnar urðu þó með nokkuð snubbóttum hætti því Kvam var sagt fyrirvaralaust upp störfum um þetta leyti, samkomulag var þó um að hann færi með sveitina aftur til Hollands sumarið 1992 en þar var hún í raun sjálfstæð eining utan skólans og gekk undir nafninu Blásarasveit æskunnar (og starfaði reyndar áfram um tíma undir því nafni), og enn vann sveitin þar til viðurkenninga fyrir góða frammistöðu.

Strengjasveit tónlistarskólans
Blásarasveitir störfuðu þó áfram í nafni skólans, fyrst um sinn undir stjórn Gordon Jack og síðar Jóns Halldórs Finnssonar en náðu þó aldrei þeim hæðum sem D-sveit Roars Kvam náði. Minni blásarasveitir s.s. kvintettar og kammersveitir voru jafnframt starfandi innan skólans og eru auðvitað ennþá en einnig hefur stórsveit (big band) starfað þar nokkuð samfleytt frá því seint á níunda áratugnum, sú sveit fór einnig utan til Danmerkur 1988 og hefur verið skipuð nemendum og kennurum skólans.
Þó svo að blásara- eða lúðrasveitir Tónlistarskólans á Akureyri hafi verið hvað fyrirferðamestar í starfinu á sínum tíma voru þar starfandi fleiri sveitir sem margar hverjar vöktu verðskuldaða athygli. Englendingurinn Michael Jón Clarke hafði komið um svipað leyti til Akureyrar og Roar Kvam sem fiðlukennari og hann stofnaði strengjasveit við skólann líklega á sama tíma og lúðrasveitin var stofnuð, minna fór þó fyrir þeirri sveit en lúðrasveitinni en strengjasveitir af ýmsu tagi og stærðum s.s. kammersveitir, strengjakvartettar, -kvintettar o.fl. hafa starfað við skólann síðan og líklega allt upp í þrjár í senn, fyrst undir stjórn Clarke en svo einnig undir stjórn Mögnu Guðmundsdóttur, Jóns Rafnssonar o.fl. Strengjasveitir í nafni skólans hafa að minnsta kosti tvívegis komið við sögu á plötum, annars vegar safnplötunni Íslands þúsund ár: Syng Guði dýrð, sönghátíð kirkjukóra í Hólastifti haldin á Akureyri 28. júní 1981 (1981) og hins vegar á plötu Kirkjukórs Lögmannshlíðarsóknar samnefndri kórnum (1984).

Stórsveit Tónlistarskóla Akureyrar
Blásara- og strengjasveitir tónlistarskólans hafa í gegnum tíðina einnig myndað hina eiginlegu skólahljómsveit sem hefur verið kölluð ýmsum nöfnum, spilað við ýmis tækifæri og sinnt ýmsum verkefnum. Upphaflega hafði Michael J. Clarke stjórnað slíkri sveit sem gekk fyrst einfaldlega undir heitinu Skólahljómsveit Tónlistarskólans á Akureyri en hún hafði verið sett á laggirnar í kringum miðjan áttunda áratuginn, Oliver J. Kentish og Robert Bezdek stjórnuðu henni síðar en hún hafði að geyma á milli 40 og 50 hljóðfæraleikara og hélt fasta tvenna tónleika á ári og tók einnig þátt í annars konar verkefnum, t.d. með Passíukórnum á Akureyri, spilaði í leiksýningum á vegum Leikfélags Akureyrar á My fair lady og Kardimommubænum, lék undir söng á stóru karlakóramóti o.s.frv. Síðar var skólahljómsveitin kölluð sinfóníuhljómsveit og eitthvað fleira, og fór m.a. á stórt hljómsveitamót í Danmörku árið 1994 og lék þá undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Einhverjir nemendur sveitarinnar (en einkum þó kennarar) komu einnig að Kammerhljómsveit Akureyrar (1986-93) og síðar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands (st. 1993) en tónlistarskólinn og hljómsveitir hans má segja að hafi alltént verið uppeldisstöð fyrir þær sveitir.
Við Tónlistarskólann hafa samhliða þessum stærstu hljómsveitum verið starfræktar blokkflautusveitir sem líklega að mestu hafa verið skipaðar yngstu nemendum skólans, undir stjórn Sigurlínu Jónsdóttur, Lilju Hallgrímsdóttur, Jacqueline FranzGibbon o.fl., slíkar sveitir hafa verið starfandi að minnsta kosti frá 1980 og ein þeirra fór m.a. erlendis og lék á tónleikum árið 1999. Þá var einnig boðið upp á harmonikkunám við skólann um 1980 fyrst allra tónlistarskóla og í kjölfarið var mynduð átján manna harmonikkuhljómsveit sem starfaði um tíma undir stjórn Karls Jónatanssonar.
Fjölmargar annars konar hljómsveitir, s.s. slagverks- og gítarhljómsveitir hafa án nokkurs vafa verið starfandi innan blómlegs starfs Tónlistarskólans á Akureyri í gegnum tíðina.