Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri [1] (1983-91)

Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri 1985

Um nokkurra ára skeið á níunda og tíunda áratug liðinnar aldar var starfrækt öflug hljómsveit við Tónlistarkóla Akureyrar undir nafninu Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri, sveitin lék oftsinnis opinberlega og vakti hvarvetna athygli fyrir góðan leik.

Sveitin var stofnuð í upphafi árs 1983 og virðist í byrjun hafa verið eins konar tilraunaverkefni fram á vorið. Sú tilraun þótti takast það vel að framhald var á starfi hennar næsta vetur en það var Edward J. Fredriksen sem stjórnaði sveitinni fyrstu þrjú árin, hann var jafnframt aðal hvatamaðurinn að stofnun sveitarinnar. Næstu árin á eftir skiptust þeir Finnur Eydal og Norman H. Dennis á um að stjórna sveitinni og síðustu árin sem hún starfaði var það Robert C. Thomas sem var stjórnandi, sveitin starfaði fram á vorið 1991.

Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri

Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri skipuðu í upphafi um tuttugu manns og hélst sú tala nokkuð stöðug meðan sveitin starfaði. Meðal þekktra tónlistarmanna sem léku með sveitinni má nefna fyrrnefndan Finn Eydal klarinettuleikara, Óskar Einarsson píanóleikara sem síðar varð kunnur kórstjóri gospelkóra, Þórir Jóhannsson kontrabassaleikari og Jón Elfar Hafsteinsson gítarleikari (síðan með Stjórninni og fleiri sveitum). Í henni voru bæði nemendur og kennarar úr tónlistarskólanum og einnig annað tónlistarfólk frá Akureyri.

Sveitin spilaði töluvert sem fyrr segir á tónleikum, mest á heimaslóðum á Akureyri en einnig sunnan heiða og erlendis en sveitin fór a.m.k. einu sinni utan til spilamennsku. Þá munu vera til upptökur með sveitinni í Ríkisútvarpinu.