
Drengjalúðrasveit Barnaskólans á Akureyri
Drengjalúðrasveit Barnaskólans á Akureyri (Drengjalúðrasveit Akureyrar) var stofnuð haustið 1954 en fyrr það sama ár hafði Barnakór Akureyrar farið í söngferðalag til Noregs þar sem víða var tekið á móti þeim með lúðrablæstri drengjalúðrasveita, í kjölfarið kviknaði hugmyndin um þessa sveit og kom Akureyrarbær að verkefninu með því að leggja til húsnæði og greiða laun stjórnanda lúðrasveitarinnar.
Jakob Tryggvason stjórnaði sveitinni lengstum eða í um tuttugu og ár, og var fyrirkomulagið með þeim hætti að drengirnir (sem voru á aldrinum 11-15 ára) störfuðu með sveitinni í um fjögur ár en hópurinn endurnýjaðist stöðugt með nýjum meðlimum. Þeir elstu gengu þá gjarnan upp í Lúðrasveit Akureyrar.
Sveitin fór í fjölmörg tónleikaferðalög um landið og taldi yfirleitt um tuttugu til tuttugu og fimm meðlimi.
Ekki liggur fyrir hversu lengi nákvæmlega Drengjalúðrasveit Barnaskólans á Akureyri starfaði en Roar Kvam stýrði henni 1975, hafði þá nýverið tekið við sprotanum af Jakobi Tryggvasyni. Kvam hafði þá stofnað lúðrasveit innan Tónlistarskólans á Akureyri nokkru áður og má ætla að sú sveit hafi í kjölfarið tekið við af drengjalúðrasveitinni sem hafi þá um það leyti hætt störfum.