Barnakór Akureyrar [2] (1948-58)

Barnakór Akureyrar

Barnakór Akureyrar sem hér um ræðir er líklega þekktasti kórinn sem starfaði undir þessu nafni en hann hlaut frægð sem náði út fyrir landsteinana.

Það var barnakólakennarinn Björgvin Jörgensson sem átti allan heiðurinn af kórnum en hann stofnaði hann í upphafi árs 1948 innan Barnaskólans á Akureyri, Björgvin hafði komið til starfa á Akureyri haustið 1946 en hafði þar á undan stofnað og stjórnað sambærilegum kór í Borgarnesi.

Barnakór Akureyrar, sem lengi innihélt á milli fimmtíu og sextíu börn flest á aldrinum tíu til tólf ára, hlaut fljótlega mikla athygli fyrir söng sinn og svo fór að Ríkisútvarpið lét taka upp söng kórsins á nokkrar plötur líklega árið 1952, einhverjar þeirra upptaka bárust til Noregs og voru spilaðar í norska ríkisútvarpinu.  Í kjölfarið, í janúar 1954 bauðst kórnum að koma fara til Álasunds í Noregi og syngja þar á tónleikum um sumarið. Lengi var óvíst hvort af þessari tónleikaferð yrði þar eð ljóst var að hún kostaði skildinginn, enda tíðkaðist ekki á þeim tíma að ferðast með stóra hópa barna á milli landa og hvað þá til að syngja. Kórinn hafði þá oftsinnis haldið tónleika hér heima en allur ágóði þeirra hafði farið í hljóðfærasjóð fyrir Barnaskóla Akureyrar.

Það varð þó úr að eftir ýmsar fjáröflunarleiðir og styrki, m.a. frá Akureyrarbæ, fór kórinn utan, kom sá og sigraði en hann vakti mikla athygli ytra og varð til að efla mjög vinabæjasamband milli Akureyrar og Álasunds í kjölfarið en það samband er enn á.

Árið 1954 komu út tvær plötur með söng Barnakórs Akureyrar með alls sex lögum en óvíst er hvort um sömu upptökur er að ræða og Ríkisútvarpið hafði gert fáeinum árum á undan. Á plötunum tveimur sungu Anna G. Jónasdóttir og Arngrímur B. Jóhannsson einsöng en Arngrímur varð síðar þekktur flugmaður. Meðal annarra þekktra meðlima kórsins má nefna söngvarann Óðin Valdimarsson, Engilbert Jensen síðar söngvara Hljóma, Jón Hlöðver Áskelsson síðar tónlistafrömuð á Akureyri og Jóhann Daníelsson söngvara sem víða hefur komið við í norðlensku sönglífi.

Björgvin Jörgensson kórstjórnandi varð fyrir alvarlegu vinnuslysi sumarið 1958 þar sem hann vann við að reisa sementsverksmiðjuna á Akureyri, honum varð vart hugað líf um tíma en jafnaði sig að einhverju leyti síðar. Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvort hann var þá þegar hættur með Barnakór Akureyrar eða hvort hvort starfseminni var sjálfhætt við þennan atburð, alltént starfaði kórinn að minnsta kosti til ársins 1957.

1959 var nýr kór settur á laggirnar innan barnaskólans undir stjórn Birgis Helgasonar, hann var í grunninn sami kórinn en er hér skráður undir nafninu Kór Barnaskóla Akureyrar.

Efni á plötum