Afmælisbörn 26. apríl 2022

Daníel Þorsteinsson

Einhvers konar metdagur hlýtur að vera í dag en Glatkistan hefur upplýsingar um tíu tónlistartengd afmælisbörn:

Einar Vilberg (Hjartarson) er sjötíu og tveggja ára gamall í dag, hann starfaði lengstum einn, gaf út tvær sólóplötur en einnig aðra plötu í samstarfi við Jónas R. Jónsson. Einar var þó eitthvað í hljómsveitum eins og Bláum englum, Eilífð, Beatniks, Rain og Brimkló sem hann staldraði reyndar stutt í.

Trausti Már Ingólfsson trommuleikari er fimmtíu og þriggja ára gamall á þessum degi. Trausti Már lék á trommur í hljómsveitinni Stuðkompaníinu frá Akureyri sem sigraði Músíktilraunir 1987 og naut feikimikilla vinsælda í kjölfarið, en hann hefur einnig lamið húðir í sveitum eins og Byltingu, Echoes, Karakter, Danshljómsveit Eyjólfs Kristjánssonar og Cuba Libre.

Þröstur Elvar Óskarsson tónlistarmaður á stórafmæli en hann er fimmtugur á þessum degi. Þröstur er kunnastur fyrir að hafa verið einn meðlima Súrefnis sem vakti heilmikla athygli á sínum tíma en hann var einnig í hljómsveitunum Redicent og Kindinni sem enginn vildi losa af gaddavírnum.

Daníel Þorsteinsson (Danni í Maus) trommuleikari er fjörutíu og sex ára gamall. Auk þess að vera trommuleikari Maus, sem sigraði Músíktilraunir 1994, hefur hann trommað og spilað með hljómsveitunum Blixbarbel hotdog band, Maunum, Sometime, Brimi, Herr Hansen, Super oldies, Big fat juicy mama, Títus og Hinum vonlausu.

Björn Roth myndlistamaður er sextíu og eins árs gamall í dag. Hann fékkst heilmikið við tónlist á sínum yngri árum, gaf m.a. út plötuna Autofahrt / Bílferð ásamt föður sínum, og kom einnig við sögu á plötu Bárðarbúðarböðlanna. Þekktust sveita Björns er þó án nokkurs vafa Bruni BB sem vægast sagt var umdeild hljómsveit.

Bjarni Sigurðsson frá Geysi

Kristinn Halldór Árnason gítarleikari er fimmtíu og níu ára gamall í dag. Hann nam gítarleik hér heima, á Spáni, Bandaríkjunum og Englandi og hefur sent frá sér nokkrar plötur með klassískum gítarleik, hann var jafnframt hér áður í hljómsveitum eins og Iss!, Júpíters, Hringjum, Reiðri konu í austurbænum . eða ? og Viðsemjendum en hefur einnig leikið inn á fjölda hljómplatna  í gegnum tíðina.

Sjálfur Prins Póló eða Svavar Pétur Eysteinsson á afmæli í dag en hann er fjörutíu og fimm ára gamall. Svavar Pétur hefur gefið út nokkrar plötur undir Prins Póló nafninu en hann hefur einnig starfað með fjölda annarra tónlistarmanna og í hljómsveitum eins og Létt á bárunni, Rúnk, Emmet, Blimp, Skakkamanage og Múldýrinu. Þá hefur hann komið að ýmsum öðrum þáttum tónlistar eins og plötuútgáfu, tónsmíðum og textagerð.

Bjarni Sigurðsson frá Geysi átti afmæli á þessum degi. Bjarni, fæddur 1935, var lagahöfundur og harmonikkuleikari og lék með fjölda sveita á yngri árum sínum s.s. Tónabræðrum, Safír sextett, Caroll quintet og Tríó ´72 en hann sendi einnig frá sér þrjár plötur sem höfðu að geyma efni eftir hann sjálfan. Hann lést árið 2018.

Björgvin Guðmundsson tónskáld (f. 1891) átti einnig afmæli þennan dag en hann lést árið 1961. Björgvin fæddist í Vopnafirði, menntaðist hér heima í orgelleik en fluttist til Kanada með fjölskyldu sinni þar sem hann var öflugur í tónlistarlífi Vestur-Íslendinga. Til Íslands kom hann aftur heim um fertugt, settist að á Akureyri og starfaði þar við tónlistarkennslu og kórstjórnun auk þess að semja tónlist.

Gunnar (Eyþór) Ársælsson gítarleikari hefði ennfremur átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 1988. Gunnar (f. 1952) lék með hljómsveitum á sínum tíma eins og Dansbandinu, Bendix og Rósinni svo fáeinar séu hér nefndar.

Vissir þú að Óðmenn gáfu út fyrsta tvöfalda albúmið á Íslandi?