Bjarni Sigurðsson frá Geysi (1935-2018)

Bjarni Sigurðsson frá Geysi

Bjarni Sigurðsson frá Geysi var dæmigerður alþýðutónlistarmaður sem lék á ýmis hljóðfæri og samdi tónlist í frístundum sínum, eftir hann liggja útgefnar plötur og nótnahefti.

Bjarni fæddist 1935 og kenndi sig alltaf við Geysi í Haukadal þar sem faðir hans, Sigurður Greipsson rak m.a. íþróttaskóla en staðurinn hefur þó alltaf verið þekktastur fyrir ferðaþjónustu sem þar er rekin og er í eigu fjölskyldunnar. Bjarni bjó lengstum á höfuðborgarsvæðinu en dvaldi oft eystra.

Bjarni starfaði mestmegnis við bílstjórastörf en samdi tónlist í tómstundum sínum, hann lék á ýmis hljóðfæri svosem harmonikku, cordovox og bassa, og lék með ýmsum danshljómsveitum fyrrum – þeirra á meðal má nefna Tónabræður, Safír sextett og Caroll quintet en síðar starfrækti hann sveitir sjálfur undir nafninu Tríó ´72 og Miðnæturmenn. Þá lék hann oft á harmonikku fyrir gesti Hótel Geysis í heimabyggð sinni og þar voru jafnan haldin svokölluð Bjarnaböll.

Þrjár plötur hafa komið út með tónlist Bjarna, árið 1998 kom út platan Liðnar stundir: Frændurnir Eiríkur Bjarnason frá Bóli & Bjarni Sigurðsson frá Geysi, en sú plata hafði að geyma lög eftir þá frændur. Eiríkur á Bóli hafði kennt Bjarna á harmonikku þegar sá síðarnefndi var á unga aldri og vildi hann með útgáfunni heiðra minningu frænda síns og um leið að koma í veg fyrir að lög Eiríks glötuðust að eilífu, þá fyllti hann upp í plötuna með eigin lögum. Lögin voru í flutningi ýmissa listamanna, m.a. söngvaranna Jóns Kr. Ólafssonar og Þuríðar Sigurðardóttur.

Árið 2003 kom út plata sem litlar upplýsingar er að finna um, svo virðist sem um sex laga plötu sé að ræða með söng Skálholtskórsins og Barnakórs Biskupstungna undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, og ber platan titilinn Sólglit í skýjum: Sunlit skies. Lög plötunnar eru eftir Bjarna og virðist hann gefa plötuna út en frekari upplýsingar um þessa plötu óskast sendar Glatkistunni. Meðal annarra má þar finna lagið Biskupstungur sem er eins konar óður Bjarna til átthaganna og hafa kórar á svæðinu margoft haft það á söngdagskrá sinni. Tveimur árum síðar (2005) kom út nótnahefti með sama titil (Sólglit í skýjum) en það innihélt nótur við tólf laga Bjarna.

2007 kom síðan út platan Horft til baka en hún var eins konar safnplata með lögum Bjarna, að megninu til unnin upp úr hinum plötunum tveimur. Hún gæti hafa verið endurútgefin með annarri röð laganna.

Lög Bjarna hafa eitthvað komið við sögu á safnplötum og hér er nefnd platan Danslagakeppnin Hótel Borg sem hafði að geyma lög í anda gömlu danslagakeppna SKT, sú plata kom út árið 1986.

Bjarni lést vorið 2018, þá kominn á níræðisaldur.

Efni á plötum