Sólseturskórinn [2] (1992-)

Sólseturskórinn syngur undir stjórn Benedikts Helgasonar árið 1997

Á Húsavík hefur um langt árabil starfað kór eldri borgara, lengst af undir nafninu Sólseturskórinn (stundum með rithættinum Sólseturkórinn).

Kórinn mun hafa verið stofnaður árið 1992 en líklega liðu fjölmörg ár áður en hann hlaut nafnið Sólseturskórinn, líklega var það ekki fyrr en um aldamót. Reyndar eru upplýsingar almennt mjög takmarkaðar um þennan kór einkum framan af en Benedikt Ingvar Helgason var stjórnandi hans áður en Sigurður Hallmarsson tók við – hugsanlega komu fleiri stjórnendur við sögu áður. Síðustu árin hefur Hólmfríður Benediktsdóttir verið stjórnandi Sólseturskórsins.

Kórinn hefur að minnsta kosti tvívegis gefið út plötur, þá fyrri árið 2004 en þar var um að ræða átján laga plötu gefna út í tilefni af tíu ára afmæli kórsins þar sem sungið var undir stjórn Benedikts og fimm árum síðar kom út önnur plata, Sólseturkórinn syngur en þá var Sigurður við stjórnvölinn. Upplýsingar um þessar útgáfur eru af mjög skornum skammti og er því óskað eftir frekari upplýsingum um þær og ekki síður um kórastarfið almennt.

Sólseturskórinn er eftir því sem best verður komist, enn starfandi og í fullu fjöri undir stjórn Hólmfríðar Benediktsdóttur.

Efni á plötum