Sólstrandargæjarnir (1993-2001)

Sólstrandargæjarnir Unnsteinn og Jónas

Sólstrandargæjarnir skutust mjög óvænt upp á stjörnuhimininn sumarið 1995 þegar stórsmellurinnn Rangur maður kom út með sveitinni og hljómaði í viðtækjum landsmanna út árið og gerir reyndar af og til ennþá. Sveitin sendi frá sér þrjár skífur á aðeins einu ári og þá fjórðu nokkrum árum síðar.

Þótt Sólstrandargæjarnir hafi komið upp á yfirborðið sumarið 1995 sem hljómsveit höfðu þeir Jónas Sigurðsson úr Þorlákshöfn og Unnsteinn Guðjónsson frá Djúpavogi starfað saman sem dúett undir þessu nafni líklega frá 1993 en þeir höfðu þá verið saman í Menntaskólanum á Egilsstöðum og hugsanlega einnig í Alþýðuskólanum á Eiðum á undan en um það leyti höfðu þeir félagar þegar vakið athygli í sitt hvoru lagi, Jónas með Trössunum og Unnsteinn með Niturbösunum. Fjölmörg lög urðu til í samstarfi þeirra félaga og höfðu orðið vinsæl í hópi vina og kunningja í kringum þá en mestmegnis var um að ræða grínlög með súrum textum, spiluð í fjölmörgum og fjölmennum menntaskólapartíum fyrir austan.

Árið 1995 kom upp sú hugmynd að safna þessum lögum saman í því skyni að dreifa þeim innan vinahópsins, upphaflega hugmyndin var að gefa út kassettu en frá því var horfið og ákveðið að það yrði í formi geisladisks sem bar nafn dúettsins – Sólstrandargæjarnir.

Sólstrandargæjarnir á sviði 1995

Það fór þó þannig að það sem upphaflega átti að koma út í litlu upplagi og fyrir fáa aðila varð fljótlega mjög vinsælt og seldist að lokum í um 2000 eintökum og er löngu ófáanlegt. Það sem fyrst og fremst varð til þess, var að SSSól sem um vorið 1995 fór af stað með balltúr undir yfirskriftinni Sólbruni ´95 tók Sólstrandargæjana með sem upphitunarband en Einar Bárðarson hafði þá tekið við umboðsmennsku hjá Sólinni og átti sinn þátt í því. Það varð því sett saman hljómsveit í nafni Sólstrandargæjana og hana skipuðu auk Jónasar og Unnsteins, þeir nafnar Stefán Jónsson gítarleikari og Stefán Ingimar Þórhallsson trommuleikari (síðar í Á móti sól). Fjórmenningarnir störtuðu túrnum á Astro ásamt Sólinni snemmsumars og svo var farið vítt og breitt um landið í kjölfarið og alls staðar hljómaði stórsmellurinn Rangur maður, sem varð sumarhittarinn á Íslandi 1995 og varð reyndar miklu vinsælla en það efni sem SSSól sendi frá sér það sumar. Um verslunarmannahelgina skemmti sveitin á Neistaflugi í Neskaupstað.

Nafn sveitarinnar var eins konar skírskotun í Baywatch þættina sem þá nutu vinsælda og þegar myndband var gert við lagið Rangur maður hlupu þeir félagar um strönd í slow motion sem strandverðir, en af einhverjum ástæðum vildi Ríkissjónvarpið aldrei taka það til sýninga. Þótt Rangur maður væri klárlega vinsælasta lag sumarsins heyrðist lagið Sólstrandargæi einnig töluvert spilað í útvarpi. Platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu en á henni eru tvö síðustu lögin sögð vera flutt af hljómsveitinni The Travelling assholes og er það líklega tónleikaútgáfa sveitarinnar, að öðru leyti fluttu þeir Jónas og Unnsteinn efnið.

Sólstrandargæjarnir 1995

Ævintýrinu átti að ljúka um haustið enda hafði verið tjaldað til einnar nætur og ekki gert ráð fyrir slíkum vinsældum en þegar framhaldsskólarnir byrjuðu um haustið fóru nemendafélög þeirra að bóka sveitina á skólaböll og ýmsar skemmtanir svo ekki var aftur snúið og Sólstrandargæjarnir héldu samstarfinu áfram, þá var ákveðið að hamra járnið meðan það var heitt og gefa út jólaplötu undir svipuðum formerkjum – hraðsoðinn menntaskólahúmor. Á plötunni sem hlaut nafnið Uglujól var að finna níu lög, flest þekkt erlend jólalög í útgáfum þeirra Jónasar og Unnsteins sem komu aðeins tveir við sögu að þessu sinni en einnig voru þar frumsamin jólalög. Platan vakti litla athygli og fékk fremur slaka dóma í Morgunblaðinu.

Það fór því svo að Sólstrandargæjarnir spiluðu víða um land um veturinn 1995-96 og þegar voraði aftur var blásið í sumartúr ásamt írsku hljómsveitinni The Butterfly band, um það leyti kom þriðja plata sveitarinnar út á aðeins einu ári enda voru þeir félagar harðákveðnir í að mjólka markaðinn og það var meira en feikinóg að gera hjá þeim. Í kringum þjóðhátíðardaginn sem lenti á helgi það sumarið lék sveitin t.a.m. á átta stöðum.

Nýja platan sem hlaut nafnið Kú-tíví og var vísun í Zoo TV verkefni hljómsveitarinnar U2 í kringum Zooropa plötu þeirrar sveitar, kom út um vorið sem fyrr segir en naut ekki nándar nærri eins mikilla vinsælda og platan sumarið á undan, þar var þó að finna lögin Skrítið og svo Partí á Rassgötu 3 sem nutu nokkurra vinsælda. Kú-tíví hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu en slaka í DV en á plötunni var sveitin fullskipuð, þ.e. þeim meðlimum sem túruðu með henni um sumarið, það voru auk Jónasar og Unnsteins, Stefánarnir tveir og svo söngkonan Esther Jökulsdóttir en hún hafði einmitt verið með Jónasi í hljómsveitinni Blöndustrokkunum á Eiðum.

Sólstrandargæjarnir 1996

Eftir sumartúrinn þar sem Sólstrandargæjarnir fóru mikinn hætti sveitin en síðar sagði Jónas að hann hefði fengið nóg, og í kjölfarið dró hann sig í hlé um tíma en þeir Unnsteinn áttu síðar eftir að birtast sem sólólistamenn þótt Jónas væri þar töluvert meira áberandi.

Árið 2001 birtust Sólstrandargæjarnir eftir nokkurra ára hlé með plötu en svo virðist sem sveitin hafi þá verið búin að leika eitthvað í millitíðinni á Útlaganum á Flúðum þar sem platan var tekin upp „lifandi“, þá voru í henni sem fyrr Jónas, Unnsteinn, Stefán ásláttarleikari og Esther söngkona en einnig Páll Sveinsson trommuleikari, Ólav Veigar Davíðsson ásláttarleikari og Róbert Dan Bergmundsson bassaleikari. Á umslagi plötunnar, sem ber titilinn Alltígúddí eru meðleikarar þeirra sagðir bera nafnið The Travelling assholes band, þetta var blanda laga sem áður höfðu komið út með sveitinni og nýrra laga. Hún fékk afar slaka dóma í tímaritinu Fókusi og fór reyndar ekki hátt. Svo virðist sem Sólstrandargæjarnir hafi ekki komið saman opinberlega eftir þetta.

Rangur maður hefur eins og hægt er að ímynda sér komið út á nokkrum safnplötum s.s. 100 íslensk lög í ferðalagið (2009), Ávextir (1996) og Óskalögin 9 (2005) en lagið hefur einnig komið út í meðförum flytjenda eins og Strumpunum og Á móti sól, fleiri hafa jafnframt spreytt sig á laginu þó ekki hafi það komið út í efnislegu formi hjá þeim öllum.

Efni á plötum