Spírandi baunir (1994-98)

Spírandi baunir

Hljómsveitin Spírandi baunir vakti nokkra athygli með frammistöðu sinni í Músíktiltraunum en skaut eiginlega aðeins yfir markið þegar sveitin sendi frá sér plötu og kom það henni í koll.

Spírandi baunir hafði verið stofnuð upp úr hljómsveitinni Kuski árið 1994 og störfuðu sveitirnar reyndar samhliða um tíma en hljóðfæraskipan var að einhverju leyti ólík hjá sveitunum tveimur, meðlimir baunanna voru þeir Hannes Þór Baldursson söngvari, Þórarinn Elvar bassaleikari, Pétur Einarsson gítarleikari og Aðalsteinn Ólafsson trommuleikari, og þannig skipuð tók sveitin þátt í Músíktilraunum vorið 1996.

Spírandi baunir komst áfram í úrslit Músíktilraunanna og var svo kjörin athyglisverðasta sveit keppninnar en tónlistin var pönkskotið rokk. Verðlaunin voru nokkrir tímar í hljóðveri sem sveitin nýtti sér til að taka upp nokkur lög en þeir félagar spiluðu nokkuð á tónleikum um sumarið og m.a. á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina.

Síðsumars höfðu Spírandi baunir hljóðritað nokkur lög í viðbót og í kjölfarið sendi sveitin frá sér átján laga plötu undir nafninu Óðs manns ævi, platan hlaut þó aldrei þá athygli sem þeir ætluðu því umslag plötunnar sem líklega var brandari varð til þess að dreifingaraðilinn neitaði að dreifa henni aukinheldur sem myndir af plötuumslaginu fengust hvergi birtar, hvorki í auglýsingum né umfjöllunum um plötuna. Það sem fór fyrir brjóstið á mönnum var samsett mynd af Ólafi Ragnari Grímssyni sem þá hafði nýverið verið kjörinn forseti Íslands og Adolf Hitler, í umfjöllun DV um málið sagði blaðið að myndin væri siðlaus en ekki ólögleg að mati lögfræðinga. Minna varð því úr kynningu um plötuna en ætlað var og reyndar birtist aðeins einn dómur um hana, í Morgunblaðinu – þar þótti platan þokkaleg en gagnrýnanda fannst of mikið gert út á skrýtileika sveitarinnar auk þess sem plötuumslagið var gagnrýnt. Þess má geta að á plötunni er að finna ein ábreiða, af laginu Meira pönk sem hafði komið út á plötunni Hlúnkur er þetta með Halla og Ladda nokkrum árum fyrr.

Spírandi baunir störfuðu eitthvað áfram en ekki fór þó mikið fyrir henni og hún hætti líklega störfum um mitt ár 1998.

Efni á plötum