Steinsteypa (1995-96)

Steinsteypa

Hljómsveitin Steinsteypa starfaði á Siglufirði um eins árs skeið um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og tók þá m.a. þátt í Músíktilraunum Tónabæjar.

Steinsteypa var líklega stofnuð snemma sumars 1995 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Grétar Sigurðsson bassaleikari, Börkur Þórðarson söngvari, Sigþór Ægir Frímannsson gítarleikari og Helgi Svavar Helgason trommuleikari. Síðsumars hætti Grétar í sveitinni og tók Sigurbjörn Einar Guðmundsson við bassanum af honum og þá hafði Sigurður Steinsson tekið við gítarnum af Sigþóri.

Um tíma gengu þeir félagar undir nafninu Concrete en þegar voraði 1996 dustuðu þeir rykið af gamla nafninu og kepptu undir Steinsteypu-nafninu í Músíktilraunum Tónabæjar, sveitin komst ekki áfram í úrslit keppninnar og hætti hún líklega störfum fljótlega eftir það.