Stjúpsystur (1983-86)

Stjúpsystur á sviði

Stjúpsystur var söngtríó þriggja leikkvenna sem starfaði um nokkurra ára skeið í kringum miðjan níunda áratug síðustu aldar við töluverðar vinsældir.

Leikkonurnar þrjár, þær Guðrún Alfreðsdóttir, Guðrún Þórðardóttir og Saga Jónsdóttir höfðu starfað með Revíuleikhúsinu frá árinu 1981 en haustið 1983 hófu þær þrjár að koma fram undir nafninu Stjúpsystur (einnig stundum kallaðar Stupid sisters). Tildrög þess að þær stöllur hófu að koma fram undir þessu nafni voru þau að þær vildu skáka karlaveldinu í skemmtanabransanum en þær sungu frumsamda söngdagskrá í anda Andrew systra og voru þá einnig með stutta leikþætti og sketsa þar sem m.a. var skotið á karlrembur. Fyrst um sinn fluttu þær dagskrá sína á sýningu (ásamt fleirum) í Þórscafe en eftir áramótin 1983-84 hófu þær að koma fram sjálfstætt og skemmtu þá víða um land með dagskrá sína á árshátíðum, þorrablótum og þess konar skemmtunum, þær fóru m.a. utan og skemmtu m.a. Íslendingum búsettum í Lúxemborg.

Stjúpsystur

Sumarið 1984 fóru Stjúpsystur sveitaballatúr ásamt hljómsveitinni Dansbandinu og söngkonunni Önnu Vilhjálms en sá túr var blásinn fljótlega af enda var sveitaballabransinn þá í nokkurri lægð, þeim vegnaði mun betur einar og sér með dagskrá sína og nutu mikilla vinsælda hvar sem þær skemmtu. Næstu misserin áttu þær stöllur eftir að skemmta bæði sjálfstætt en einnig í Þórscafe og fleiri skemmtistöðum allt fram á sumarið 1986, og þá var einnig gerður með þeim sjónvarpsþáttur sem bar nafnið Glettur og var sýndur í Ríkissjónvarpinu um haustið eða um það leyti sem þær hættu störfum.