Stormsveitin [6] (2011-)

Hljómsveitarhluti Stormsveitarinnar

Frá árinu 2011 hefur hópur karlmanna á ýmsum aldri starfrækt hljómsveit og kór í Mosfellsbæ sem gengur undir nafninu Stormsveitin. Hópurinn hefur sent frá sér plötu og dvd disk.

Hugmyndin mun hafa komið frá Sigurði Hanssyni en haustið 2011 setti hann á stofn um fimmtán manna sönghóp karla og fimm manna hljómsveit í því skyni að flytja lög í rokkaðri kantinum ásamt hljómsveit, bæði klassíska karlakórastandarda sem og klassísk rokklög, afraksturinn varð Stormsveitin sem kom fyrst fram á þorrablóti Aftureldingar í Mosfellsbæ í ársbyrjun 2012.

Gjörningurinn þótti takast það vel að framhald varð á og kórinn og hljómsveitin hafa starfað síðan, komið fram reglulega á fyrrnefndu þorrablóti en einnig verið með árlega þrettándatónleika í Hlégarði, komið fram á bæjarhátíðinni Í túninu heima og jafnframt mörgum sinnum utan heimahéraðs, t.a.m. hefur hópurinn haldið tónleika bæði í Salnum í Kópavogi og Austurbæ í Reykjavík auk þess sem hann hefur komið fram á stóra sviðinu á Þjóðhátíð Vestmannaeyinga, sungið á tónleikum í Flatey á Breiðafirði og tekið þátt í kórakeppninni Kórar Íslands á Stöð 2 svo dæmi séu nefnd.

Hljómsveit Stormsveitarinnar hefur verið skilgreind sem metal band og meðlimir hennar eru Arnór Sigurðarson trommuleikari (sonur Sigurðar og meðlimur Snjólugtar, Bob Gillan o.fl.), Jens Hansson hljómborðs- og saxófónleikari (bróðir Sigurðar og meðlimur m.a. Sálarinnar hans Jóns míns), Ingvi Garðarsson gítarleikari (Vio o.fl.), Friðrik Halldórsson bassaleikari (Volt o.fl.) og Páll Sólmundur Halldórsson Eydal gítarleikari (Vintage caravan, Amabadama o.fl). Einnig hafa Andri Ívarson gítarleikari, Þórður Sigurðsson hljómborðsleikari og Baldur Kristjánsson bassaleikari leikið með sveitinni.

Stormsveitin

Uppistaða kórsins, sem syngur fjórraddað, mun vera úr Karlakór Kjalnesinga en heldur hefur fjölgað í hópnum en fækkað, og eru kórmeðlimir líklega um tuttugu talsins. Fjöldinn allur af þekktum söngvurum hafa komið fram með Stormsveitinni á tónleikum og hafa þau Birgir Haraldsson úr Gildrunni og Stefanía Svavarsdóttir verið þar fremst í flokki en einnig hafa söngvarar eins og Stefán Jakobsson úr Dimmu og fleiri sungið með hópnum. Reyndar hefur samstarf Stormsveitarinnar og hljómsveitarinnar Dimmu leitt til þess að kórhlutinn söng inn á plötu sveitarinnar Eldraunir, sem kom út 2017.

Stormsveitin sendi frá sér plötu árið 2017 sem hlaut titilinn Stormviðvörun en hún hafði verið hljóðrituð á þrettándatónleikum sveitarinnar árið 2016, útgáfa plötunnar var fjármögnuð á Karolina fund og hefur að geyma tvenns konar útgáfur – annars vegar tólf laga geisladisk og hins vegar níu laga dvd disk.

Starfsemi Stormsveitarinnar lá niðri að mestu leyti meðan Covid heimsfaraldurinn stóð yfir en er nú kominn í fullan gang aftur eftir því sem best verður komist.

Efni á plötum