Afmælisbörn 3. mars 2023

Guðbjörn Guðbjörnsson

Fimm tónlistarmenn koma við afmælissögu Glatkistunnar í dag

Guðbjörn Guðbjörnsson óperusöngvari er sextíu og eins árs gamall í dag en hann nam söng hér heima, í Þýskalandi og Sviss, og starfaði erlendis þar til hann sneri heim til Íslands. Hér heima hefur hann lítið fengist við söng síðustu árin, starfar sem yfirtollvörður en hefur reyndar kennt við Söngskóla Sigurðar Demetz.

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarmaður, upptökustjóri og útsetjari svo fátt eitt sé nefnt, er fimmtíu og sjö ára gamall í dag. Þorvaldur er þekktastur sem einn Todmobile-liða en hefur einnig fengist við upptökur, útsetningar, tónsmíðar og annars konar spilamennsku. Hann hefur  t.d. þrívegis samið Eurovision framlög Íslands. Hann starfar nú sem tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar.

Jón Valur Guðmundsson trommuleikari á einnig afmæli á þessum degi en hann er þrjátíu og fimm ára gamall. Jón Valur hefur leikið á trommur með hljómsveitum eins og Big Kahuna, Who knew og Krónu, og sjálfsagt eru sveitirnar mun fleiri en hér eru upptaldar.

Fiðluleikarinn Gréta Guðnadóttir á stórafmæli dagsins en hún er sextug á þessum degi. Gréta nam fiðluleik hér heima og í Bandaríkjunum og hefur reyndar doktorsgráðu í fræðunum. Hún hefur leikið lengi með Sinfóníuhljómsveit Íslands en einnig með Caput hópnum og öðrum kammersveitum, og þá hefur hún jafnframt leikið inn á ógrynni platna t.a.m. með léttari tónlist í popp- og rokkgeiranum.

Óperusöngvarinn Guðmundur Guðjónsson hefði einnig átt afmæli í dag en hann lést árið 2016. Guðmundur sem var fæddur 1922, var tenórsöngvari sem byrjaði ekki að læra söng fyrr en um fertugt og var nokkuð áberandi á söngsviðinu enda telst hann vera af fyrstu kynslóð óperusöngvara hérlendis. Hann átti mikið og gott samstarf við Sigfús Halldórsson og gaf út tvær plötur í samstarfi við hann.

Vissir þú að Sigtryggur Baldursson fæddist í Noregi?