Guðmundur Guðjónsson (1922-2016)

Guðmundur Guðjónsson

Guðmundur Guðjónsson óperusöngvari telst vera einn frumkvöðla í íslenskri óperutónlist en einnig komu út plötur með honum í samstarfi við Sigfús Halldórsson tónskáld.

Guðmundur fæddist árið 1922 í Reykjavík og bjó þar reyndar alla ævi, hann var húsgagnasmiður að mennt og reyndar benti lítið til annars en að það yrði ævistarfsvettvangur hans og hann rak m.a. húsgagnasmðju um tíma. Hann var hins vegar ráðinn til nýstofnaðs Ríkissjónvarpsins árið 1967 og þar átti hann eftir að starfa um árabil, fyrst sem sviðsmaður en síðan sem sviðsstjóri. Söngnám hóf Guðmundur ekki fyrr en um fertugt, fyrst hjá Guðmundi Jónssyni, Kristni Hallssyni og Sigurði Demetz en síðan hjá Clemens Glettenberg í Þýskalandi þar sem hann dvaldist um skeið.

Guðmundur hafði um þrítugt (árið 1952) byrjað að syngja með Karlakór Reykjavíkur, hann vakti athygli fyrir tenórrödd sína og söng oft einsöng með kórnum á tónleikum hér heima og erlendis, einsöng hans má heyra á plötu með kórnum. Hann var af fyrstu kynslóð óperusöngvara hérlendis en óperuuppfærslur voru að ryðja sér til rúms hér á landi á sjötta áratugnum, hann söng á ferli sínum í um þrjú hundruð sýningum í Þjóðleikhúsinu bæði í óperum og söngleikjum, þar af yfir tvö hundruð óperusýningum í fjórtán óperum. Hann söng einnig á nokkrum óperusýningum í Danmörku þegar hann var við nám í Þýskalandi en hafnaði tilboðum um starf í óperuheiminum erlendis og kom heim.

Guðmundur kom margsinnis fram á söngstónleikum ýmist einn eða með öðrum, frægt er til dæmis samstarf hans við söngkonuna Sigurveigu Hjaltested en þau sungu mikið saman á tónleikum í kringum héraðsmót og þess konar skemmtanir, hann kom einnig oft fram í útvarpssal og söng þar einsöng við undirleik píanóleikara eins og Skúla Halldórssonar og fleiri en hann söng einnig í fyrstu útgáfu Einsöngvarakvartettsins sem stofnaður var 1968, frægt var þegar hann söng háa C-ið standandi á höndum en hann var á yngri árum þekktur íþróttamaður. Guðmundur var töluvert þekktur söngvari þegar hann lagði sönginn á hilluna í kringum 1970 rétt tæplega fimmtugur, líklega til að helga sig betur starfi sínu sem sviðsstjóri hjá Ríkissjónvarpinu.

Sigfús Halldórsson og Guðmundur Guðjónsson

Það fór svo ekki svo að söngferli Guðmundar væri þá lokið, á síðari hluta áttunda áratugarins áttu tvær plötur eftir að koma út með honum í samstarfi við tónskáldið Sigfús Halldórsson. Þeir félagar hófu að skemmta saman með tónlist Sigfúsar og árið 1976 kom út plata á vegum Hljómplötuútgáfunnar sem bar hinn langa titil Guðmundur Guðjónsson syngur lög eftir Sigfús Halldórsson við undirleik höfundar. Á þeirri plötu var afrakstur samstarfs þeirra í formi sautján perlna úr fórum tónskáldsins og má meðal annarra nefna lög eins og Í dag, Tondeleyó og Dagný, platan var endurútgefin af Skífunni á geisladiskaformi árið 1995.

Þeir Guðmundur og Sigfús fóru mikinn á þessum árum, skemmtu oft saman í Þórscafé og einnig m.a. á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, á Vísnakvöldum Vísnavina og einnig fóru þeir á Íslendingaslóðir í Ameríku með skemmtiprógramm sitt, stundum var þá talað um að Guðmundur væri sérfræðingur í að syngja lög Sigfúsar. Guðmundur söng þarna orðið einnig með eldri kór Karlakórs Reykjavíkur (allt til ársins 2009) og einnig söng hann um tíma með Söngsveit Fílharmóníunnar.

Önnur plata kom út með þeim Guðmundi og Sigfúsi fyrir jólin 1978, sú plata hét Fagra veröld eftir einu laginu en það var við samnefnt ljóð Tómasar Guðmundssonar en þeir Sigfús höfðu átt ágætt samstarf, annars komu ljóðin úr ýmsum áttum eins og á fyrri plötunni og mörg þeirra teljast meðal þekktustu laga Sigfúsar s.s. Litla flugan, Játning og Við Vatnsmýrina. Þessi plata fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og var hún endurútgefin 1996.

Söng Guðmundar Guðjónssonar má heyra á nokkrum útgefnum plötum öðrum en hér hafa verið nefndar, einhver laga hans með Sigfúsi Halldórssyni rötuðu t.d. á safnplötur, m.a. plötu sem fylgdi bók Sigfúsar, Kveðja mín til Reykjavíkur, en einnig má nefna plötu með lögum eftir Árna Björnsson tónskáld, safnplötuna Íslenskar söngperlur og ferilsplötur óperusöngkvennanna Þuríðar Pálsdóttur og Guðrúnar Á. Símonar svo dæmi séu tekin. Ríkisútvarpið gaf síðan út plötu helgaða Guðmundi í útgáfuröðinni Útvarpsperlur en á þeirri plötu er m.a. að finna upptökur úr fórum Ríkisútvarpsins þar sem heyra má óperusöng hans auk annars konar söngs, en Guðmundur var sem fyrr er greint lengi starfsmaður stofnunarinnar.

Guðmundur Guðjónsson lést vorið 2016 en hann var þá orðinn níutíu og fjögurra ára gamall.

Efni á plötum