Afmælisbörn 4. mars 2023

María Brynjólfsdóttir

Í dag eru fjögur tónlistartengd afmælisbörn skrásett hjá Glatkistunni.

Það er í fyrsta lagi gítarleikarinn og rithöfundurinn Friðrik Erlingsson en hann er sextíu og eins árs á þessum degi. Friðrik sem kunnur sem handritshöfundur og rithöfundur í dag var í fjölda misþekktra hljómsveita hér áður fyrr og eru hér nefndar sveitir eins og Sykurmolarnir, Purrkur pillnikk, Stuðventlar, Tunglskinstríóið, Amen og Bacchus en einnig er hann þekktur textagerðarmaður og er m.a. skrifaður fyrir textahlutanum í óperunni Ragnheiði.

Ottó Davíð Tynes er fimmtíu og þriggja ára gamall í dag en hann hefur starfað með fjölda hljómsveita í gegnum tíðina. Hér á meðal má nefna sveitir eins og Dónadúettinn, Ottó og nashyrningana, Talúlu, Geirfuglana og Íslenska tóna. Ottó hefur gefið út sólóefni undir nafninu Wasabi og hefur aukinheldur komið víðs vegar við sögu á hinum ýmsu plötum.

Næst er það tónskáldið María Brynjólfsdóttir (1919-2005) sem hefur verið nefnd sem ein huldukvenna í íslenskri tónlist þar sem lítið hefur farið fyrir henni. María var ein fyrsta íslenska konan sem komst á blað sem tónskáld og hafa nokkur sönglaga hennar komið út á plötum, um eitt hundrað lög eftir hana komu út í tveimur nótnaheftum en hún mun hafa samið annað eins af lögum sem hafa því miður ekki varðveist.

Og að síðustu er það Atli Ólafsson (1913-85) sem telst vera fyrsti dægurlagasöngvarinn á Íslandi en tvær plötur með honum komu út árið 1936 þar sem hann söng dægurlög undir dulnefninu Guðmundur Þorsteinsson. Atli starfaði lengi við fjölskyldufyrirtækið Hljóðfærahús Reykjavíkur og þar átti hann þátt í að varðveita íslenskan rímnakveðskap en hann stofnaði einnig leðuriðjuna Atson sem starfar reyndar ennþá.

Vissir þú að tónlistarmenn eins og Haukur Morthens, Ingimar Eydal, Svavar Gests og Bjarni Böðvarsson voru bindindismenn og drukku aldrei áfengi?