María Brynjólfsdóttir (1919-2005)

María Brynjólfsdóttir

Nafn Maríu Brynjólfsdóttur tónskálds hefur ekki farið ýkja hátt en hún hefur stundum verið nefnd sem ein huldukvenna í íslenskri tónlist.

María (Sigríður) Brynjólfsdóttir fæddist 1919, hún missti foreldra sína ung og ólst upp hjá fósturforeldrum á Akureyri þar sem hún komst fyrst í kynni við tónlist. Veikindi hrjáðu hana lengi á yngri árum en hún veiktist af berklum og var því lengi óvinnufær, hún nam píanóleik hjá Árna Kristjánssyni um tíma meðan hún gat þrátt fyrir veikindin en það mun hafa verið eina tónlistatilsögnin sem hún naut um dagana.

María hóf snemma að semja sönglög og var klárlega ein af fyrstu kvenmönnunum hérlendis til að gera slíkt. Þær lagasmíðar fóru þó ekki hátt til að byrja með og í raun var það ekki fyrr en hún var komin fram yfir miðjan aldur að hún lét almennilega að sér kveða á tónskáldasviðinu, hún sagði síðar í útvarpsviðtali að hvatning frá Áskeli Snorrasyni tónskáldi og kórstjórnanda á Akureyri hefði verið sér mikils virði. Henni áskotnaðist píanó sem sr. Bjarni Þorsteinsson þjóðlagasafnari á Siglufirði hafði átt og notaði það til að semja en er hún fluttist suður til Reykjavíkur í kringum 1960 hafði hún ekki aðgang að hljóðfæri í um tíu ára skeið, þegar hún eignaðist þá hljóðfæri tók hún aftur til við tónsmíðar.

María skrifaði ekki nótur en fékk Carl Billich tónlistarmann til þess fyrir sig og árið 1972 sendi hún frá sér hefti sem innihélt sönglög á nótum, útsett fyrir einsöngvara, kóra og píanó, sem hann hafði unnið fyrir hana. Í kjölfarið komu út tvö önnur slík nótnahefti á áttunda áratugnum með hátt í eitt hundrað sönglögum en María hafði samið annað eins af lögum sem mörg hver hafa þó ekki varðveist sem skyldi.

María Brynjólfsdóttir

Mörg laga Maríu hafa komið út á plötum með einsöngvurum og kórum, lagið Glerbrot við ljóð Freysteins Gunnarssonar er líklegast hennar kunnasta lag en einnig má nefna lagatitla eins og Til komi ljósið, Úr daglega lífinu, Lestin brunar, Tvær litlar hendur, Blær í faxi, Spörfuglinn, Ef væri ég söngvari og Gamalt lag. Jóhann Már Jóhannsson, Benedikt Benediktsson, Karlakór Keflavíkur, Samkór Mýramanna, Ásgerður Júníusdóttir og Skagfirska söngsveitin eru meðal flytjenda sem gefið hafa lög hennar út á plötum. Þá hafa nokkur laga hennar verið hljóðrituð hjá Ríkisútvarpinu og eru þar varðveitt.

María Brynjólfsdóttir lést árið 2005 komin á níræðis aldur og hefur minningu hennar og tónsmíðum verið haldið nokkuð á lofti síðustu árin ásamt öðrum huldukonum í íslenskri tónlist, m.a. með tónleikahaldi.