Þegar maður gerir of miklar kröfur

GusGus – Mexico
Sena SCD 613 (2014)

3 stjörnur

GusGus - Mexico

GusGus – Mexico

GusGus er að verða tuttugu ára gömul en upphaf sveitarinnar verður rakið til 1995 þegar hópur ungs fólks vann að kvikmyndinni Pleasure, sem fór ekki hátt en tónlistin úr myndinni varð í raun að fyrstu plötu sveitarinnar, þetta varð eins konar fjöllistahópur sem gerði tónlistina fljótlega að aðaláherslu og var hann fjölskipaður til að byrja með og komu ýmsir við sögu, s.s. Magnúsarnir Jónsson og Guðmundsson (Herb Legovitz) og söngkonurnar Emilíana Torrini, Hafdís Huld og Heiðrún Anna Björnsdóttir. GusGus gaf út fleiri plötur, smám saman varð hópurinn fámennari og skipan hans í fastari skorðum og má segja að kjarni hennar, Birgir „Veira“ Þórarinsson, Stephan Stephensen (President Bongo) og Daníel Ágúst Haraldsson hafi verið límið frá upphafi en frá aldamótum hefur söngkonan Urður Hákonardóttir verið ómissandi hluti hópsins þar til nýlega er hún sagði skilið við hann. Síðan þá reiknast mér til að hafi komið út einar sjö breiðskífur og fjöldinn allur af smáskífum, safn-, endurhljóðblöndunum og splitskífum frá sveitinni og mun Mexico því vera sú áttunda í röðinni.

Fyrstu hlustanir voru erfiðar og ég meðtók tónlistina illa í upphafi, þannig verð ég að viðurkenna að þessi plata var töluvert lengur að síast inn í kollinn á mér heldur en Arabian horse (síðasta plata GusGus á undan Mexico) sem var vægast sagt frábær, og auðvitað er ósanngjarnt með öllu að ætla að bera þessar tvær plötur saman en því miður stenst Mexico illan samanburð við Arabian horse.

Platan byrjar á laginu Obnoxiously sexual, Högni Egilsson iðulega kenndur við Hjaltalín, sem kom lítillega við sögu Arabian horse er nú orðinn fullgildur meðlimur GusGus og hann fær upphafslagið sem hann veldur vel, og þar með er ljóst að sveitin hefur aldrei verið jafn vel í sveit sett sönglega. Næstu tvö lög eru í höndum hinna söngvaranna, Urðar og Daníels og má alveg viðurkenna að platan byrjar þokkalega, en síðan koma þrjú lög um miðbik hennar sem mér finnst hreinlega ekki nógu sterk, áður en henni lýkur með glans en þrjú síðustu lög Mexico eru bestu lög plötunnar að mínu mati, Not the first time, titillagið Mexico sem er instrumental og frábært á allan hátt, og svo lokalagið This is what you get when you mess with love.

Mexico er alls ekki slæm plata en það er erfitt að segja hvað það er nákvæmlega við plötuna sem manni hugnast ekki, hún er eins og mátti búast við sándlega flott en það vantar e.t.v. fleiri lög sem brjóta hana upp, Mexico virkar þannig flatari en maður hefði fyrirfram gert kröfur um. Allavega varð ég fyrir örlitlum vonbrigðum með þessa plötu þrátt fyrir að hún standist að mörgu leyti kröfur mannns. Það er bara svo erfitt að sætta sig við eitthvað lakara en Arabian horse. Það er svona þegar kröfurnar eru orðnar svo miklar.