T-World (1988-97)

T-World

T-World var dúett sem var á tímabili áberandi í dansgeiranum en sveitin reyndi fyrir sér á erlendum vettvangi um tíma. Segja má að stofnun GusGus hafi verið upphafið að endalokum dúettsins.

Sögu T-World má rekja allt aftur til 1988 en þá byrjuðu þeir Birgir Þórarinsson (Biggi Veira) og Guðberg K. Jónsson að búa til og vinna tónlist með tölvur og hljóðgervla. Í fyrstu var tónlistin eins konar technopopp, eins og þeir skilgreindu það sjálfir síðar, en það var ekki fyrr en sumarið 1992 að þeir félagar komi fram opinberlega, þá á listahátíðinni Loftárás á Seyðisfjörð.

Auk þess að vinna eigin lög munu þeir einnig hafa endurunnið og -hljóðblandað efni annarra, til að mynda segir sagan að þeir hafi endurgert lag Greifanna, Nótt (af plötunni Dúbl í horn) en sú útgáfa lagsins hefur hvergi komið út. Tvíeykið starfaði eitthvað með söngkonunni Þóru Björnsdóttur, hljómsveitinni Yukatan og Hilmari Erni Hilmarssyni en líkast til var eingöngu um að ræða tilraunastarfsemi sem aldrei kom út á plötum.

Fyrsta útgefna lag þeirra T-World liða kom út á safnplötunni Blávatn en hún kom út 1993 til styrktar átaks gegn áfengi. Um svipað leyti kom út annað lag á safnplötunni Núll og nix: ýkt fjör. Jafnframt það sama ár kom út endurhljóðblöndun þeirra á lagi með dúettnum Bong á safnplötunni Reif á sveimi. 1994 kom einnig út lag með T-World á safnplötunni Egg ´94.

Ekki liggur fyrir hvenær nákvæmlega Guðberg hætti samstarfinu við Birgi en það hefur að öllum líkindum verið 1993, í hans stað kom Magnús Guðmundsson (Maggi Legó / Herb Legowitz) og störfuðu þeir Birgir saman eftir það. Með þessari breytingu breyttist tónlistin nokkuð, varð þyngri og meira út í ambient/sveimtónlist.

T-World

Tónlist T-World hlaut nokkra athygli í ambient senunni úti í hinum stóra heimi og a.m.k. ein smáskífa (12 tomma) kom út með sveitinni á vegum Underwater records sem þeir gerðu útgáfusamning við en einnig gæti hafa komið út önnur skífa áður á vegum Darren Emerson. Sveitin átti einnig efni á erlendum safnplötum í þessum geira, bæði í Evrópu og Japan.

Vorið 1995 unnu þeir T-World liðar tónlist við kvikmyndina Nautn nr.1 í samstarfi við Daníel Ágúst Haraldsson og upp úr því samstarfi varð hljómsveitin GusGus til. Segja má að með tilkomu þeirrar sveitar hafi dagar T-World að mestu verið taldir enda varð GusGus samstarfið að mörgu leyti áhugaverðari kostur fyrir þá Birgi og Magnús þar sem sveitin hlaut fljótt mikla athygli.

Dagar T-World voru þó ekki strax taldir og 1995 var sýnd heimildamynd um sveitina í Ríkissjónvarpinu, um verslunarmannahelgina það sama ár var hún meðal sveita sem komu fram á UXA 95 við Kirkjubæjarklaustur.

Segja má að T-World hafi að mestu lognast út af 1997 þótt hún hafi komið einstöku sinnum fram síðan, t.d. árið 2003 þegar sveitin hitaði upp fyrir Sasha, einnig 2004, 2006 og 2009.

Árið 2000 kom þó út sjö laga skífan GusGus vs. T-World, og kom hún til vegna þess að GusGus átti þá eftir að uppfylla samning við breska útgáfufyrirtækið 4AD og ákvað að klára þann samning með því að gefa út gamalt efni með T-World (frá 1993 og 94) undir nafni GusGus. Platan kom út víða um lönd og í margs konar formi s.s. á vínyl og snældu. Einnig kom út fjögurra laga smáskífa með hluta efnisins, auk þess sem ellefu laga sjóræningja-útgáfa birtist í Rússlandi um sama leyti.

Efni á plötum