Götupartý – Pop-up borg og tónleikar á HönnunarMars

Pop-up Hönnunarmars 2015 logoKraumur tónlistarsjóður og Hönnunarsjóður Auroru setja upp pop-up borg og bjóða á tónleika á HönnunarMars í ár, laugardagskvöldið 14. mars klukkan 21:00, þar sem fjölmargar hljómsveitir og tónlistarmenn koma fram í porti Hafnarhússins. Meðal þeirra sem stíga á stokk eru Retro Stefson,Sin Fang og Samaris sem allar hafa fengið Kraumsverðlaun fyrir verk sín. Einnig koma fram; Snorri Helgason, Bjartey & Gígja úr YLJU, Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn. Hönnun portsins er í höndum Theresu Himmer og Brynhildar Pálsdóttur.

Viðburðurinn, sem lýsa mætti sem götupartý með tónleikum, er stefnumót tónlistar og hönnunar þar sem tónlistarmenn, hönnuðir og arkitektar mætast í pop-up borg framtíðarinnar. Um er að ræða samvinnuverkefni Kraums tónlistarsjóðs og Hönnunarsjóðs Auroru sem síðustu ár hafa unnið með og að framgangi fjölda íslenskra tónlistarmanna og hönnuða, hérlendis sem erlendis.

Í porti Hafnarhússins er verkefnið Hæg breytileg átt með sýningu á HönnunarMars sem varpar ljósi á íbúðir og hverfi framtíðarinnar, en þetta kvöld umbreytist sýningin í lifandi framtíðarborg þar sem á einni götunni er blásið til partýs!

Allir velkomnir. Enginn aðgangseyrir