Risarokk [2] [tónlistarviðburður] (1991)

Eiríkur Hauksson og Artch í Kaplakrika (2)

Eiríkur Hauksson söngvari Artch.

Tónlistarhátíðin Risarokk var haldin í Kaplakrika í Hafnarfirði þann 16. júní 1991 og voru sannkallaðir risatónleikar á mælikvarða þess tíma, þetta var reyndar stærsta rokkhátíð sem þá hafði verið haldin utanhúss á Íslandi. Rokk hf. annaðist undirbúning viðburðarins.

Á sviðinu í Kaplakrika voru það mest erlendar rokkhljómsveitir sem spiluðu en einnig kom þar fram GCD með Bubba Morthens og Rúnar Júlíusson, og hin „hálf“ íslenska Artch með Eirík Hauksson söngvara í broddi fylkingar. Einnig stóð til að Risaeðlan léki á hátíðinni en af því varð ekki. Erlendu gestirnir voru Slaughter, Thunder, Bullet boys og Quireboys, Poison átti að verða aðalnúmer tónleikanna en á síðustu stundu tilkynnti sveitin forföll vegna fingurbrots bassaleikarans, ýmsar aðrar getgátur voru þó uppi um raunverulega ástæðu þess að Poison mætti ekki, m.a. innbyrðis átök, slagsmál og almennt áhugaleysi fyrir landinu í norðri.

Á sjötta þúsund manns mættu í Kaplakrikann og skemmtu sér frá hádegi fram undir miðnætti í blíðskaparveðri, tónleikagestir fengu þarna í fyrsta skipti á Íslandi að upplifa alvöru rokkhátíð með sölubásum, veitingatjöldum og viðeigandi stórtónleikastemmingu.