Ósómi (1982)

Litlar upplýsingar er að hafa um hljómsveitina Ósóma enda mun hún hafa verið skammlíf sveit og e.t.v. ekki spilað opinberlega utan þess er hún kom fram á Risarokk tónleikunum sem haldnir voru í Laugardalshöllinni haustið 1982.

Ósómi hafði að geyma meðlimi úr pönksveitunum Q4U og Sjálfsfróun en sveitirnar tvær höfðu komið fram í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík, ofangreindir Risarokk tónleikar voru einmitt haldnir til að rétta af fjárhag Hugrennings, sem framleiddi myndina.

Meðlimir sveitarinnar voru þeir Bjarni Þórðarson (Bjarni móhíkani) söngvari og gítarleikari, Jónbjörn Valgeirsson trommuleikari og Guðjón Baldursson bassaleikari en Elínborg Halldórsdótir söngkona (Ellý í Q4U) söng með þeim í eitt skipti einnig.

Sveitin mun hafa hljóðritað eitthvað efni en það hefur aldrei verið gefið út.