Rondó tríó (1955-70)

Rondó tríóið 1967

Rondó tríó

Rondó var hljómsveit sem starfaði í fimmtán ár og lagði alltaf áherslu á að leika gömlu dansana þrátt fyrir ýmsa strauma og stefnur sem sjötti og sjöundi áratugurinn leiddi af sér í tónlistinni.

Meðlimir Rondó voru upphaflega fjórir og því gekk sveitin fyrst um sinn undir nafninu Rondó kvartett. Sveitin lék fyrst og fremst í Kópavogi framan af og er freistandi að ætla að hún hafi átt þar sína heimahaga.

Á þessum tíma tíðkaðist ekki að söngvarar væru hluti af hljómsveitum heldur lausráðnir, jafnvel kvöld og kvöld í senn, og voru því ýmsir söngvarar sem komu við sögu hennar, stundum tveir samtímis. Þeirra á meðal var t.d. Garðar Guðmundsson sem söng með þeim 1959.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hverjir skipuðu Rondó í upphafi en Matthías Karelsson harmonikkuleikari var allan tímann í sveitinni.

Á sjöunda áratugnum var Rondó orðin að tríói og 1964 voru auk Matthíasar, Gunnar Bernburg bassaleikari og Guðmundur Steinsson trommuleikari í sveitinni, um tíma einnig Guðmar Marelsson trommari. Sigurður Þórisson var orðinn trymbill sveitarinnar 1966 en ekki er ljóst hvort hann tók við af Guðmundi. Ári síðar var Einar Jónsson trommuleikari Rondó tríós. Það sama ár var Arthur Moon bassaleikari sveitarinnar og þegar hér var komið sögu virðast lausráðnir söngvarar hafa verið úr sögunni, þeir félagar sungu sjálfir.

Rondó tríóið 1964

Rondó tríó 1964

Sem fyrr segir lagði Rondó iðulega áherslu á tónlist fyrir eldra fólkið og því voru þeir ekki endilega samstíga þeim vinsældastraumum og stefnum sem herjuðu hérlendis í formi bítlatónlistar og hipparokks í kjölfarið. Það er því eðlilegt að fjögurra laga plata sem þeir sendu frá sér 1969, félli ekki beinlínis í kramið hjá þeim sem skrifuðu plötudómana í blöðin á því herrans ári. Að minnsta kosti fékk platan afar slaka dóma bæði í Alþýðublaðinu og Morgunblaðinu, reyndar fólst gagnrýnin helst í slökum hljómi og hljóðblöndun. Tónlistin var að mestu eftir Karel en textarnir komu mestmegnis frá þjóðskáldunum.

Rondó lék nokkuð sleitulítið þau fimmtán ár sem sveitin starfaði, bæði á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins en einnig á samkomum tengdum Alþýðuflokknum. Hún virðist hafa starfað fram að áramótum 1970-71, allavega er hennar síðast getið í blöðum um haustið 1970.

Efni á plötum