Don Arden (1926-2007)

Don Arden

Don Arden

Don Arden var hvorki íslenskur né bjó hérlendis en plata með honum kom út árið 1954 á vegum Tóniku þar sem hann söng við undirleik strengjasveitar undir stjórn Ólafs Gauks, og því er sjálfsagt og eðlilegt að umfjöllun birtist um hann hér.

Don Arden (fæddur 1926) var breskur eftirhermusöngvari sem sérhæfði sig í að herma eftir þekktum söngvurum þess tíma s.s. Bing Crosby og Al Jolson svo dæmi séu tekin. Hann kom hingað til lands til að skemmta vorið 1954 og söng þá á nokkrum tónleikum í Austurbæjarbíói og á nokkrum stöðum úti á landi auk þess sem hann hélt tónleika á Vífilsstaðaspítala. Hljómsveitir Gunnars Ormslev og Björns R. Einarssonar munu hafa leikið undir hjá honum á skemmtununum. Ekki er ólíklega að Arden hafi hermt eftir íslenskum söngvurum, alltént var það gefið í blaðaauglýsingum fyrir tónleika hans.

Í kjölfarið kom út tveggja laga plata á vegum Músíkbúðarinnar Tóniku sem Svavar Gests rak á sínum tíma. Á þeirri plötu hermdi söngvarinn eftir söngvurunum Jimmy Durante, Mario Lanza, Jerry Lewis, Billy Daniels og Johnny Ray en hitt lagið var sagt vera nýtt og bar nafnið Sleeping beauty, strengjasveit undir stjórn Ólafs Gauks lék undir á plötunni en það var nýlunda hér á landi og vakti nokkra athygli.

Don Arden varð töluvert þekktur síðar sem umboðsmaður hljómsveita og tónlistarmanna á borð við Small faces, Electric light orchestra, Black sabbath og Ozzy Osbourne en hann var einmitt faðir Sharon Osbourne eiginkonu Ozzys. Hann lést árið 2007.

Efni á plötum