Erlendur Svavarsson (1942-)

Erlendur Svavarsson

Erlendur Svavarsson

Erlendur Svavarsson trommuleikari og söngvari sté sín fyrstu spor á sviðinu í kringum 1960 sem söngvari en trommuleikur varð þó hans aðal hlutskipti síðar.

Erlendur (f. 1942) var aðeins um sextán ára gamall þegar hann hóf að syngja ásamt nokkrum öðrum ungum söngvurum haustið 1958 með Hljómsveit Aage Lorange og stuttu síðar með Hljómsveit Árna Ísleifs. Hann endurtók leikinn í nokkur skipti veturinn 1958-59 og ríflega ári síðar var hann kominn í Neo kvartettinn, nokkru síðar hafði hann einnig sungið með KK sextettnum, þá rétt tæplega tvítugur.

Erlendur var lítið í tónlistarsviðsljósinu um tíma en þeim mun meira í leiklistarlífinu en hann fór í leiklistarnám og lék þó nokkuð á sviði, hann birtist þó um miðjan sjöunda áratuginn með hljómsveitinni Pónik, sem trommuleikari en sveitin gaf út nokkrar plötur á löngum ferli. Hann staldraði stutt við í sveitinni í þetta skiptið, var kominn í Hljómsveit Gunnars Kvaran og stuttu síðar í H.B. kvintettinn og Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar og var auk þess í Blúskompaníinu áður en hann gekk aftur til liðs við Pónik 1970. Erlendur lék bæði á trommur og sá um söng í þessum hljómsveitum, oftast ásamt öðrum söngvurum.

Þegar Pónik fór í árs hlé 1972 lék hann um tíma með Sextett Ólafs Gauks en var síðan með Pónik þar til hann fluttist til útlanda 1976 ásamt nokkrum íslenskum tónlistarmönnum, fyrst til Noregs og síðar til Svíþjóðar, til að freista gæfunnar á tónlistarsviðinu. Þar spilaði hann m.a. með hljómsveitinni Lava, íslenskri sveit sem starfaði um tveggja ára skeið.

Erlendur hafði eitthvað leikið inn á plötur hér heima áður en hann hélt í víking, hann lék til að mynda á trommur á plötu Þokkabótar, Upphaf (1974) og plötu Grettis Björnssonar (1976), auk þess sem hann hafði leikið á plötum Pónik og með Blúskompaníinu á safnplötunni Pop festival ´70. Hann kom einnig fram í nokkur skipti í sjónvarpsþáttum fyrir og um miðjan áttunda áratuginn, þar sem djass og blús var leikinn.

Erlendur, sem gengur iðulega undir nafninu Eddie Svavarsson, hefur búið erlendis síðan 1976, hann stjórnaði stórsveit til margra ára og er trommuleik með honum að finna á nokkrum útgefnum plötum. Hann kom hingað til lands 1999 með djasssveitinni The Immigrants sem var að meirihluta skipuð Íslendingum en starfaði í Svíþjóð. Tveir bræður Erlends eru tónlistarmenn, þeir Hallberg bassaleikari (sem m.a. starfaði með Erlendi í Pónik) og Kristinn saxófónleikari (Mezzoforte o.m.fl.).