Erling Ágústsson (1930-99)

Erling Ágústsson

Erling Ágústsson

Eyjamaðurinn Erling Ágústsson söng aðeins fjögur lög á plötur á sínum söngferli en þrjú þeirra náðu miklum vinsældum, svo reyndar að þau eru löngu orðin sígild í íslenskri dægurlagasögu, það hlýtur að teljast nokkuð gott hlutfall.

Erling (Adolf) Ágústsson fæddist 1930 og var Vestmannaeyingur að uppruna. Hann lærði rafvirkjun og starfaði lengstum sem slíkur en söngurinn var áhugamál, sem og textagerð en Erling samdi fjöldann allan af dægurlagatextum.

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær Erling hóf að syngja opinberlega en hann kom að minnsta kosti fram á skemmtun með Hljómsveit Jans Morávek árið 1952, hann söng síðar með Hljómsveit Magnúsar Randrup, Hljómsveit Gísla Bryngeirssonar og HG sextettnum en lengst af með Hljómsveit Guðjóns Pálssonar, hugsanlega á árunum 1955-59.

Í kringum 1960 fluttist Erling upp á land og bjó um tíma í Reykjavík áður en hann fór síðar til Njarðvíkur. Uppi á fasta landinu söng Erling m.a. með Hljómsveit Árna Elfar og síðan Hljómsveit Eyþórs Stefánssonar þegar fjögur lög voru tekin upp og gefin út af Stjörnuhljómplötum á tveimur plötum, 1960 og 1961. Lögin voru flest með textum Erlings sjálfs og nutu mikilla vinsælda, Oft er fjör í Eyjum og Þú ert ungur enn (Nonni) af fyrri plötunni hafa notið hylli síðan sem og annað lagið á síðari plötunni, Við gefumst aldrei upp (þó á móti blási).

Þrátt fyrir þessar miklu vinsældir varð útgáfuferill Erlings ekki lengri, hann söng eitthvað opinberlega áfram en það var í raun miklu minna en tilefni var til, hann kom fram á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 1981 þar sem hann söng nokkur lög með Brimkló auk þess að koma fram í nokkur skipti með Hljómsveit Guðjóns Pálssonar en annars voru sönguppákomur hans mest tengdar djasshátíðum á níunda og tíunda áratugnum. Erling var radíó-amatör, hafði áhuga á útvarps- og sjónvarpsrekstri og rak frjálsar (ólöglegar) stöðvar í Vestmannaeyjum og Njarðvíkum löngu áður en fólki hugkvæmdist það. Erling lést 1999.
Lögin sem Erling söng á plötur hafa komið reglulega út á safnplötum í seinni tíð, þar skulu nefndar Aftur til fortíðar 50-60 II og III (1990), Aftur til fortíðar 60-70 I (1990), Bíódagar (1994), Óskalög sjómanna (2007), Óskalögin (1997), Óskalögin 2 (1998), Rokklokkar (1995), Stóra bílakassettan III (1979), Stóra bílakassettan V (1980), Strákarnir okkar (1994), Svona var það 1960 (2005), Það gefur á bátinn (1981), Þrjátíu vinsæl lög 1950-60 (1977) og Þrjátíu vinsælustu söngvararnir 1950-75 (1978).

Efni á plötum