Eggert Stefánsson (1890-1962)

Eggert Stefánsson

Eggert Stefánsson

Eggert Stefánsson tenórsöngvari (1890-1962) var einna fyrstur Íslendinga til að nema söng erlendis og þá um leið að syngja inn á hljómplötur. Ferill hans spannaði ríflega þrjátíu og fimm ár og komu á þriðja tug 78 snúninga platna út með honum á árunum milli 1920 og 30.

Eggert var yngri bróðir Sigvalda Kaldalóns tónskálds, fæddur 1890 í Reykjavík. Hann var um tvítugt þegar hann ákvað að hleypa heimdraganum og fara til söngnáms í Kaupmannahöfn. Ekki voru allir á eitt sáttir um ágæti þess að læra söng og fékk Eggert að heyra það hjá sumum löndum sínum, það lét hann þó ekki stöðva sig. Í Danmörku var hann um tíma (útskrifaðist 1914) en menntaði sig einnig í listinni í Svíþjóð, Englandi og loks Ítalíu, sem átti eftir að verða hans annað heimaland enda kynntist hann ítalskri konu sem hann síðar giftist.

Eggert lagði alla tíð áherslu að flytja efni eftir bróður sinn, og um leið að kynna íslensk tónskáld erlendis. Það var því engin tilviljun að lög eftir Sigvalda yrðu aðalefnið á fimm hljómplötum sem gefnar voru út 1920, af tíu lögum voru níu eftir Sigvalda. Óþekktur enskur píanóleikari annaðist undirleik á plötunum sem teknar voru upp í London en komu hér út á vegum Fálkans. Plöturnar hlutu góðar viðtökur hér heima, seldust fljótlega upp og urðu ófáanlegar, þegar næstu plötur með honum komu út 1926 og 27, hafði ekki verið hægt að fá hljómplötur með söng hans á Íslandi í fjölmörg ár. Þær plötur (sjö talsins) voru teknar upp í Berlín haustið 1926, þar sem hann starfaði um tíma, og marka þær tímamót á Íslandi að því leyti að þær voru fyrstu íslensku hljómplöturnar sem teknar voru upp með rafmagnshljóðnema en fram að því höfðu trektir verið notaðar. Einnig má nefna að Einar E. Markan söng með honum á einni þeirra en það var í fyrsta skipti sem tveir söngvarar sungu á íslenska plötu. Í lok ársins 1926 voru fimm plötur í viðbót teknar upp með söng Eggerts í Berlín og komu þær út í byrjun árs 1927. Þessar hljómplötur höfðu flestar að geyma íslensk sönglög og þar á meðal má finna fyrstu jólalögin sem Íslendingur söng inn á plötu, Heims um ból og Í Betlehem er barn oss fætt. Enn fremur má í þessari útgáfutörn finna plötu sem hafði að geyma íslenska þjóðsönginn, hann hafði þó verið sunginn áður inn á plötu. Fálkinn gaf þessar plötur einnig út sem þær fyrri (Hljóðfærahús Reykjavíkur reyndar þær sem komu út 1927) en ekki er að finna upplýsingar um undirleikara á þeim, [?] Heidenrich og Alois Melichar gætu þó hafa leikið undir í einhverjum laganna. Enn voru tekin upp nokkur lög í Berlín, snemma árs 1929 og gaf Hljóðfærahús Reykjavíkur þær plötur út síðar það sama ár og árið eftir. Í einhverjum tilfellum var þar um að ræða endurútgáfur.

Eggert Stefánsson, auglýsing úr Vísi 1926

Auglýsing í Vísi 1926

Eggert kom oft heim, einkum að sumarlagi meðan á námi sínu stóð og hélt tónleika ýmist í Reykjavík eða á landsbyggðinni, oft með Sigvalda bróður sinn sem undirleikara á svokölluðum Kaldalónskvöldum, sem urðu fræg um land allt. Hann ferðaðist einnig um heiminn og hélt tónleika víða um lönd, þ.á.m. í Íslendingabyggðum Kanada veturinn 1922-23 en þann vetur var hann ráðinn við Carnegie Hall í New York. Næsta vetur dvaldi hann hins vegar í Frakklandi þannig að hróður hans barst víða. Fjölmiðlar hérlendis voru duglegir að flytja fréttir af söngvaranum og afrekum hans á tónlistarsviðinu en sumum þótti ekki mikið til hans koma þegar hann hóf upp raust sína á tónleikum í Reykjavík, þótt oftast hlyti hann jákvæða gagnrýni. Það má e.t.v. rekja til þess að hann var auðveldlega truflaður á sviði og lítið þurfti til að hann fipaðist, þannig þurfti t.d. ekki annað en hósta í salnum til að koma honum út af laginu. Þrátt fyrir nokkurt mótlæti af þessum völdum var hann alltaf virtur fyrir framlag sitt til kynningar á íslenskri tónlist erlendis, sem fyrr segir.

Eggert starfaði yfirleitt erlendis en kom hingað reglulega, yfirleitt á hverju ári og hélt hér tónleika. Þeir voru misjafnlega sóttir en þó oftar vel en ekki. Hann söng einnig í útvarp víða um Evrópu sem hér heima en smám saman fór minna og minna fyrir honum á söngsviðinu, í stað þess fór hann nú að verða meira áberandi með ritað mál en hann skrifaði greinar í blöð um ýmis þjóðmál auk kynningagreina um Ísland á Ítalíu. Sjálfstæðismálserindið Óðurinn til ársins 1944 var flutt í útvarpinu af honum sjálfum þjóðhátíðarárið og sama ár var það gefið út á prenti og á plötu. Sú plata var einungis gefin út í fimm hundruð eintökum og keyptu fræðuyfirvöld fimmtíu eintök af henni til að nota við kennslu, eins og gefur að skilja er þarna um mjög sjaldséða plötu að ræða í dag. Til að auka enn fremur á vægi hennar má nefna að hún var pressuð á vínyl sem tíðkaðist ekki fyrr en nokkru síðar, til þess daga var efnið í plötunum yfirleitt gler.

Eins og segir hér að ofan var söngurinn smám saman á undanhaldi og hélt Eggert sína síðustu tónleika haustið 1947, í Reykjavík. Ekki er kunnugt um að hann hafi sungið opinberlega eftir það. Ritstörfin áttu nú hug hans allan og nokkrar bækur komu út eftir hann, þar á meðal ljóð og ritgerðir auk ævisögu hans, Lífið og ég, sem kom út í nokkrum bindum um og eftir 1950.

Eggert Stefánsson (2)

Eggert Stefánsson

Síðustu ár ævi sinnar var Eggert heilsutæpur á köflum, hann fékk nokkrum sinnum heilablóðfall og blindaðist um tíma en lést í árslok 1962 á heimili sínu á Ítalíu. Hann var jarðsettur í Flórens.

Eggert var mörgum minnisstæður og mun Halldór Laxness, sem var honum vel kunnugur, hafa haft hann að fyrirmynd að söngvaranum Garðari Hólm í Brekkukotsannáli, sem út kom 1957. Segir Halldór nokkuð frá kynnum þeirra í bókinni Skáldatími, þar segir hann m.a. frá þegar Eggert bauð honum að hlýða á tónleikadagskrá sem hann söng fyrir Halldór einan, og móður sína – líkt og Garðar Hólm gerir í áðurnefndri skáldsögu. Einnig má nefna að Eggert mun hafa sent fjölmiðlum hér heima fréttir af sér, líkt og segir í sögunni. Sumir kynnu e.t.v. að segja að Eggert fari nokkuð halloka fyrir háði Halldórs en það mætti túlka á ýmsa vegu. Alltént má segja að Eggert hafi þar með verið gerður ódauðlegur.

1990 kom út safnplata á vegum hljómplötuútgáfunnar Steinars og Ríkisútvarpsins með upptökum á lögum Eggerts frá þriðja áratug liðinnar aldar. Hún innihélt tuttugu og fimm lög og er ágæt heimild um feril hans, en óneitanlega féll hann nokkuð í skuggann af bróður sínum, Sigvalda.

Efni á plötum